133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:00]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að segja: Sínum augum lítur hver á silfrið. Vissulega hafa orðið framfarir á ýmsum stöðum á Íslandi en það er ekki sama hvar á er litið. Það vill svo einkennilega til að einmitt á öðru þeirra landsvæða þar sem verið hefur neikvæður hagvöxtur í átta ár af þeim tólf síðustu sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa haldið um taumana hér er landbúnaður eina undirstöðugreinin. Það er nú svo, því miður, á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Ég á ekki von á að hv. þingmaður telji þau landsvæði tvö dæmi um staði þar sem orðið hafa einhverjar sérstakar framfarir á landinu. Ég get tínt til fleiri landsvæði þar sem ekki hafa orðið framfarir, því miður. Þetta kalla ég dæmi um það að landinu hafi verið illa stjórnað.

Að sjálfsögðu hefur orðið hagvöxtur hér á landi, m.a. fyrir tilstilli EES-samningsins eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði um áðan. Það er ekkert atvinnuleysi, við erum með mestu framkvæmdir í Íslandssögunni og mér finnst undarlegt ef hv. þingmaður gat skilið það svo á orðum mínum áðan að ég væri á móti þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Austurlandi. Það er alls ekki raunin. Ég var hins vegar að taka það sem dæmi um kollsteypustjórnmál, þ.e. þar þurfti að gera byltingu til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Ég tel það ekki æskilegt og ég tel að ekki eigi að stjórna með kollsteypum í íslenskum landbúnaði.