135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:16]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Nú er það svo að í landinu gilda lög um mat á umhverfisáhrifum og það stendur í greinargerð með tillögunni að áhættumat sé nauðsynlegur hluti þessa umhverfismats. Mér finnst að ef mönnum líkar ekki sú framkvæmd sem er í gildi eigi þeir að breyta þessum lögum eða koma með tillögur um það en ekki að vantreysta stjórn Landsvirkjunar og segja að hún geti ekki gætt hagsmuna ríkisins.

Reyndar er öll greinargerðin eiginlega umhyggja fyrir fjárfestum, þ.e. Landsvirkjun, og vantraust á því að stjórnendur opinbers fyrirtækis gæti hagsmuna ríkisins. Það er náttúrlega ekki nema ein rökrétt afleiðing af því og hún er sú að selja fyrirtækið, gera það að einkafyrirtæki því að þá bera menn virkilega ábyrgð á því ef þeir gera mistök í framkvæmdum. Ef lónið fer að leka o.s.frv. þá er það vandamál þeirra sem hafa fjárfest. Þeir tapa þá og munu örugglega passa sig á því að áhættumatið sé í lagi ef þeir eiga þetta sjálfir. Þessi tillaga er kannski eitt allsherjar vantraust á ríkiseign yfirleitt, ég les það út úr þessu.

Ef þessi tillaga verður samþykkt er náttúrlega verið að samþykkja að þarna verði virkjað, vegna þess að þá á að fara í áhættumat. Þá er búið að samþykkja að þarna verði virkjað og ég er mjög hlynntur því í sjálfu sér. Úrtölurnar sem hér koma eru gamalkunnar og klingja í eyrum mér, ég hef heyrt þær áður. Þegar við fórum í gegnum Kárahnjúkadæmið komu málsmetandi vísindamenn og sögðu að þarna mundi leka einhver lifandis býsn, þarna yrðu jarðskjálftar, gott ef ekki eldgos, svo kemur ægilegt flóð niður um allar sveitir. Þetta hefur allt saman heyrst en er nú grafið og gleymt.

Svo átti arðsemin ekki að vera góð. Varðandi arðsemina gerði ég athugasemd á sínum tíma við Kárahnjúkavirkjun af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi að þetta væri ríkisframkvæmd, ég hefði viljað hafa þetta einkaframkvæmd að sjálfsögðu, trúr minni sannfæringu. Í öðru lagi gerði ég athugasemd við að í áætlunum Landsvirkjunar var gert ráð fyrir því að álverð mundi lækka um 0,45% á ári frá 1.500 dollurum á tonnið. Nú er það komið upp í 3.100 dollara.

Varðandi umræðuna í dag um stöðu efnahagsmála og allan grátkórinn þann hefur það gerst nú á síðustu tíu dögum að þessi meginuppistaða í útflutningi Íslendinga, álið, hefur hækkað um 20% á mörkuðum. Það eru nú aldeilis gleðitíðindi þannig að það er gott að eiga álið til að hlaupa upp á þegar annað bregst.

Þarna er verið að virkja á stað þar sem ekki eru ósnortin víðerni, það er sko alveg greinilegt. Það er búið að þekja allt saman með túnum og vegum og húsum o.s.frv. þannig að þetta eru ekki ósnortin víðerni. Við getum ekki notað þau rök gegn framkvæmdunum eins og í Kárahnjúkum. Kárahnjúkavirkjun átti að hafa geysilega slæm áhrif á ferðaþjónustu en ferðaþjónusta þar um slóðir hefur vaxið þvílíkt að það er allt að því til vandræða.

Það sem ég ætlaði að koma inn á, frú forseti, er það að þeir hv. þingmenn sem þetta flytja hafa gefið sig út fyrir að vera umhverfisverndarsinnar. Þeir gæta að því að jörðin sé að hitna og benda á að passa þurfi upp á koldíoxíðlosun og allt slíkt. Ég spurði hæstv. umhverfisráðherra um hvað Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu mikla koldíoxíðlosun miðað við það að sama ál væri framleitt í Kína þar sem er mesti vöxturinn núna í framleiðslu á áli og raforku til álframleiðslu. Í svari ráðherrans kom fram að Kárahnjúkavirkjun sparar mannkyninu sem nemur sexfaldri eyðslu Íslendinga með allri bílaumferð og allri umferð yfirleitt af koldíoxíðlosun. Þannig að þetta er framlag okkar til þess að minnka koldíoxíðlosun í heiminum og þessar virkjanir í Þjórsá, ef þær rísa, mundu gera það sama. Mér finnst það bara ljómandi gott fyrir utan það að þarna færi Þjórsá að vinna enn betur fyrir okkur en hún hefur gert hingað til. Hún hefur reyndar verið dugleg við það í gegnum áratugina.