135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:21]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Óðurinn til Kárahnjúkavirkjunar hljómaði hér enn einu sinni úr þessum ræðustól, (Gripið fram í.) og er ekki of oft kveðinn, segir hv. þingmaður.

Ég vil gera tvær athugasemdir við mál hv. þingmanns, annars vegar þá að það er ekki útséð um hver arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er og verður. Ég vil vekja athygli á því að hjá iðnaðarráðherra hæstv. liggur skýrslubeiðni frá okkur þingmönnum Vinstri grænna þar sem við óskum upplýsinga um það hver arðsemin er. Þetta svar átti að liggja fyrir samkvæmt reglum þingsins 20. desember sl. Ég veit ekki hvað dvelur orminn langa, það er eitthvað erfitt að reikna út arðsemina sem menn hafa ýmist fullyrt að sé mjög góð eða jafnvel engin og neikvæð. Það skyldi þó ekki vera að það sé leyndin sem hvílir yfir raforkuverðinu sem stendur þarna í vegi?

Varðandi hina arðsemisútreikningana, útreikningana á því hversu gríðarlega mikið Kárahnjúkavirkjun sparar fyrir mannkynið í losun koldíoxíðs, þá vil ég minna hv. þingmann á að það eru fleiri en Íslendingar sem framleiða raforku með vatnsafli og jafnvel jarðvarma. Það þarf ekki endilega að fórna öllum þeim náttúruverðmætum sem þarna var gert til þess að framleiða ál.

Hv. þingmaður gleymdi líka að draga frá þessari niðurstöðu. Af því að hann er nú stærðfræðimenntaður hlýt ég að vekja athygli á því að hann gleymdi að draga frá loftslagskostnaðinn við það að flytja báxítið frá Ástralíu á Reyðarfjörð og síðan að flytja álið á markaði til vinnslu aftur. Ég hlýt líka að benda á að hv. þingmaður gleymdi líka að draga frá þá mengun sem álverið sjálft losar. Ég hef nú þá trú að það séu ekki bestu (Forseti hringir.) mengunarvarnirnar á Reyðarfirði sem völ er á.