138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:24]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Þetta er dapurleg umræða. Hér tala ríkisstjórnarliðar og þeir sem hafa átt sæti í félagsmálanefnd eins og þeir hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að gera þegar þeir settu lögin hérna í haust, lög sem áttu að taka á fjárhagsvanda heimilanna og hafa ekki gert neitt gagn. Vandi heimilanna er mikill, frú forseti, og aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til hafa verið meira og minna gagnslausar og aðgerðir félagsmálaráðherra hafa verið meira og minna gagnslausar. Milli 80 og 90% þeirra sem hafa þegið þessi svokölluðu úrræði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar telja þau ekki hjálpa sér nægilega mikið.

Ég leyfi mér að minna á umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarpið. Í henni sagði að það væri fyrst og fremst sniðið að því að fella niður skuldir þeirra sem skulduðu tugi milljóna, hundruð milljóna eða milljarða vegna hlutabréfakaupa, afleiðusamninga og alls kyns fjármálabrasks og færa skuldir að eignastöðu sem er núll vegna þess að hlutabréfin voru einskis virði. Þar gerði þetta frumvarp mikið gagn og fjármagnseigendur á Íslandi mega þakka ríkisstjórninni, félagsmálaráðherra og félagsmálanefnd Alþingis fyrir að drífa þetta frumvarp í gegnum nefndina án þess að fara yfir tillögur og umsagnir sem komu um það, nema e.t.v. ef verið skyldi hafa umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja. Ekki var einu sinni tekin á dagskrá umsögn Hreyfingarinnar sem gagnrýndi aðferðirnar. Það er dapurlegt að hlusta á þetta. Það er dapurlegt að menn skuli enn þá hjakka í sama hjólfarinu og gera ekkert í því að bjarga heimilunum.

Það er rétt sem oft hefur verið sagt í þinginu, þegar fjórflokkurinn stendur saman um eitthvert mál er það varasamt, það er ekki merki um samstöðu heldur er það varasamt. Það er greinilegt að þingmenn þessa þings munu ekki hjálpa heimilum landsins. Það er fullreynt. Hvað er til ráða? (Forseti hringir.) Það að óska eftir því að hér taki við einhver önnur ríkisstjórn, það er eina ráðið. Hver það verður (Forseti hringir.) veit enginn, en við vitum fyrir víst að það mun ekkert gerast með þessari ríkisstjórn.