139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum með til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég vil láta það koma fram strax í upphafi máls míns að ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði sem liggur að baki tillöguflutningnum og skil mætavel þær tilfinningar og þau rök sem flutningsmenn og þeir sem eru þeim sammála leggja þar til grundvallar. Ég vil jafnframt láta það koma fram að ég er persónulega algjörlega ósammála þeirri nálgun málsins.

Það eru sannarlega skiptar skoðanir um þá spurningu hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Það hefur lengi verið umræðuefni, kannski þrætuefni, í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálaflokkarnir hafa að sjálfsögðu mótað sér afstöðu með samþykktum á landsfundum sínum eða á flokksþingum sínum. Og það er rétt sem kom fram í máli hv. 1. flutningsmanns að segja má að það sé í raun aðeins einn stjórnmálaflokkur sem hefur mótað þá afdráttarlausu stefnu að hann telji það eftirsóknarvert að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Í öðrum stjórnmálaflokkum eru skiptar skoðanir um málið þrátt fyrir flokkssamþykktir þar að lútandi.

Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorið 2009 var gerð samþykkt um Evrópumál sem fól í sér þrjú meginefnisatriði. Í fyrsta lagi var lögð áhersla á að landsfundurinn teldi að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Í öðru lagi lagði landsfundurinn áherslu á að fram færi opin og lýðræðisleg umræða í samfélaginu um kosti og galla Evrópusambandsaðildar. Í þriðja lagi ályktaði landsfundurinn að þjóðin ætti sjálf að leiða það til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið eða ekki.

Á grundvelli þessarar samþykktar gekk Vinstri hreyfingin – grænt framboð til stjórnarmyndunarviðræðna við Samfylkinguna eftir kosningarnar í apríl 2009. Þar var komist að ákveðinni málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða tveggja flokka, eins og gjarnan gerist við stjórnarmyndun, sem fól það í sér að lögð yrði fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu á Alþingi og allir þingmenn væru óbundnir gagnvart því. Hvorugur stjórnarflokkurinn gat í raun vitað hver úrslit málsins yrðu í þingsal. Fimm þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lýstu því yfir þá þegar að þeir mundu ekki styðja þá tillögu. Þetta var ljóst. Og í stjórnarsáttmálanum er skýrt skrifað að hvor flokkur um sig áskilji sér rétt til að halda uppi málflutningi sínum í tengslum við þetta mál í samfélaginu. Báðir flokkar hafa því haldið þessu skýrt til haga. Ég tel að það hafi verið gert.

Tillagan um að sækja um aðild var síðan samþykkt á Alþingi. Ég lít svo á að Alþingi sé að sjálfsögðu sjálft bundið af þeirri samþykkt, m.a. utanríkismálanefnd sem ég veiti forustu sé að sjálfsögðu bundin af þeirri samþykkt og vinni í samræmi við hana, og framkvæmdarvaldið sé að sjálfsögðu bundið af þeirri samþykkt á meðan Alþingi hefur ekki tekið aðra ákvörðun. Þess vegna hafi framkvæmdarvaldið ekkert val um það, hvað sem líður persónulegum skoðunum einstaklinga sem ráða þar ríkjum, en að framfylgja samþykkt Alþingis og það eigi að gera það á þann hátt að hagsmunum Íslands sé sem best borgið.

Ég verð að segja að ég er ekki sammála mörgu því sem kemur fram í greinargerð með þessari tillögu. Hér er t.d. sagt að skoðanakannanir hafi ítrekað sýnt mikla andstöðu þjóðarinnar við aðild. Það er rétt að í sumum skoðanakönnunum hefur komið fram mikil andstaða við aðild, í öðrum hefur hið gagnstæða komið fram. Það hefur líka komið fram í skoðanakönnunum að það er mikill stuðningur við það, og í nýjustu könnunum, að aðildarferlinu verði lokið og aðildarsamningur borinn undir þjóðina. Í því felst ekki að þeir sem vilja ljúka aðildarferlinu séu endilega þeirrar skoðunar að það eigi síðan að samþykkja þennan samning. Um það verða menn að taka efnislega afstöðu þegar hann liggur fyrir.

Hér er fullyrt að kostnaður ríkisins sé a.m.k. 7 milljarðar og sagt að það liggi fyrir. Ég hef ekki séð þær tölur neins staðar rökstuddar og hv. flutningsmaður rökstuddi þá fullyrðingu ekki í sínu máli.

Hér er sagt að það sé ljóst að Ísland sem aðildarríki að sambandinu mundi litlu sem engu ráða um eigin málefni, hvorki hvað varðar fjárlagagerð né efnahagsmál almennt hvað þá önnur málefni. Þetta tel ég að sé í hæsta máta varhugaverð fullyrðing. Það er auðvitað alveg ljóst að aðildarríki Evrópusambandsins líta svo á sjálf að þau séu fullvalda ríki en þau hafi að einhverju leyti deilt fullveldi sínu með öðrum þjóðum. Það er sjálfstæð ákvörðun fullvalda ríkis hvort það vill gera það og það munum við að sjálfsögðu þurfa að gera.

Það er ljóst að lítil ríki hafa hlutfallslega mikil áhrif innan Evrópusambandsins í gegnum aðild að ráðherraráði, framkvæmdastjórn og Evrópuþinginu sem hefur fengið aukið vægi á undanförnum árum og sem er kosið beinni lýðræðislegri kosningu. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga. Síðan geta menn verið þeirrar skoðunar að eftir sem áður hafi menn lítil áhrif. En rétt verður að vera rétt í þessu efni. Það er auðvitað ljóst að í gegnum EES-samninginn höfum við líka afsalað okkur hluta af fullveldi okkar án þess þó að vera aðilar við það borð þegar þar eru settar reglur sem við verðum að innleiða. Hér má auðvitað færa rök í báðar áttir.

„Sambandið gerir kröfu um að stofnanakerfi umsóknarríkja lagi sig að kröfu sambandsins í sjálfu aðildarferlinu en ekki að loknum samningum og þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Ég er algjörlega ósammála þessari fullyrðingu. Ég tel að hún sé röng. Ég tel að það hafi margsinnis komið fram af hálfu Evrópusambandsins og í samtölum og viðræðum við það að þannig er málið ekki vaxið. Það er engin krafa um það að við lögum okkar reglur eða lög eða stofnanauppbyggingu að því sem gerist í Evrópusambandinu fyrr en þjóðin hefur tekið um það ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað er okkur frjálst að gera það, ef við svo kjósum, en við höfum ekki undirgengist neinar skuldbindingar í því efni.

Ég vek athygli á því að á vettvangi Evrópuþingsins í utanríkismálanefnd Evrópuþingsins er núna til umfjöllunar ályktun um málefni Íslands þar sem skýrt kemur fram einmitt þetta að þegar verið er að tala um hina meintu aðlögun er alltaf talað um að umsóknarríki þurfi að uppfylla þau skilyrði og viðmið sem aðild að Evrópusambandinu gerir ráð fyrir og kann að leiða af niðurstöðum samninga, svo ég noti enska tungu „by the date of accession“, þ.e. við inngöngu í Evrópusambandið en ekki fyrr.

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga í þessari umræðu vegna þess að það þjónar ekki neinum tilgangi, málefnalegum tilgangi, og allra síst þeirra sem hafa efasemdir eða eru andsnúnir aðild að Evrópusambandinu að beita röngum röksemdum því að það kemur í bakið á okkur.

Í mínum huga eru margvísleg efnisleg rök málefnaleg sem mæla gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mér finnst að það eigi að nota þau frekar en að vera með einhverjar fullyrðingar sem fá ekki staðist. Það segir líka í greinargerðinni:

„Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu …“

Ég skil ekki hvernig menn geta gefið sér svona fullyrðingar fyrir fram. Það liggur auðvitað ekkert fyrir hver niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu verður kannski eftir eitt eða tvö ár. Við getum ekkert fullyrt um það.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt af okkur að ljúka þessu viðræðuferli. Í umræðum um þetta mál, þegar það var til umfjöllunar í þinginu, um ítarlegt nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem viðræðuferlinu er lýst mjög ítarlega og meginhagsmunum sem við eigum að hafa að leiðarljósi kemur fram og ég tel að það viðræðuferli sem er í gangi sé í samræmi við það sem þar er lýst. Ég hef sagt áður í þessum ræðustól að það sem hafi kannski farið öðruvísi sé að tímasetningarnar hafi ekki allar staðist, þ.e. hvenær menn gerðu ráð fyrir því að málið yrði tekið fyrir hjá Evrópusambandinu. Það hefur tafist umfram það sem menn svona ímynduðu sér, en ferlið er alveg hið sama og þar er lýst. Það finnst mér mikilvægt.

Síðan kom það fram í umræðunni hér að auðvitað gæti Alþingi tekið ákvörðun um að hætta þessum viðræðum ef einhver efnisleg rök kæmu fram um það að við værum á þeirri leið að meginhagsmunirnir, eins og þeim er lýst í nefndaráliti utanríkismálanefndar, mundu alls ekki nást. Þá gætu menn tekið afstöðu til þess. En hinar raunverulegu viðræður eru í raun ekki hafnar. Það er undirbúningur í gangi til að leggja drög að viðræðum sem núna fara fram. Hinar raunverulegu viðræður eru ekki hafnar. Það hefur ekkert reynt á meginhagsmuni okkar. Þess vegna er að mínu viti algerlega ótímabært að taka ákvörðun um að (Forseti hringir.) draga til baka umsókn og hætta viðræðum sem varla eru hafnar.

Afstaða mín er ljós. Ég styð ekki þessa tillögu en að sjálfsögðu er eðlilegt (Forseti hringir.) að hún fái efnislega og málefnalega umræðu bæði í þingsal og á vettvangi utanríkismálanefndar.