140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað síðustu spurningu hv. þingmanns vegna þess að það er eðlilegt að þeirri fyrirspurn sé beint til utanríkisráðherra sem fer með þetta mál. Það er eðlilegt að hann greini frá innihaldi þessarar skýrslu og ræði það mál við hv. þingmann.

Varðandi þá skýrslu sem hv. þingmaður nefndi og skilyrði sem hann talaði um hér fram og til baka sem Evrópusambandið setti eru tveir aðilar við þetta samningaborð, Ísland og Evrópusambandið. Hlutverk Íslands og samningamannanna er að reyna að fá sem hagstæðasta niðurstöðu í öllum málum fyrir íslensku þjóðina. Að því hefur verið unnið sleitulaust síðan við settumst að þessu samningaborði. Allt ferlið er í eðlilegum gangi og ekkert það komið upp enn þá sem bendir til þess að það verði eitthvert strand í þessum viðræðum.

Varðandi makrílinn sem hv. þingmaður nefndi hafa Íslendingar og íslenska samninganefndin haldið mjög fast og skynsamlega á því máli fyrir hönd íslensku þjóðarinnar enda hefur hún það fram að færa í því efni sem nauðsynlegt er að samningsaðilar taki tillit til þannig að þar hefur ekkert verið gefið eftir. Af hálfu okkar er ekki líðandi að ESB setji fram einhver skilyrði um makrílinn í samningaviðræðum almennt um aðildarferlið. Sú er afstaða okkar, hefur verið og mun verða.