140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar og óska henni til hamingju með að ferli máls hennar er núna að ljúka og verður væntanlega að þingsályktun Alþingis.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú er nefndin búin að breyta texta ályktunarinnar í þá veru að í staðinn fyrir „neytendur“ kemur „einstaklingur og heimili“. Það er í mínum huga svona nokkurn veginn það sama og neytendur. En svo er bætt við „gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán.“ Það er verið að leggja áherslu á lán, það er búið að taka í burtu sparifjáreigendur. Sömuleiðis stendur: „Tillögur nefndarinnar miði að því að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila“ — aftur í staðinn fyrir neytendur — „gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda.“ Nefndin er búin að skemma þá ályktun sem hv. þingmaður kom með í þá veru að nú er bara verið að skoða skuldara. Á sama tíma og allir hér inni ættu að vita, en vita það greinilega ekki, að verið er að hafa fé af því fólki sem hefur af ráðdeild og sparsemi lagt fyrir peninga á innlánsreikningum. Mér finnst þetta mjög dapurlegt, frú forseti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er hún virkilega hlynnt því að fara svona illa með sparifjáreigendur að þeir hætta hugsanlega að spara? Eftir nokkur ár þegar útlendingarnir verða búnir að taka sitt ofurframboð af peningum sem þeir eiga hérna á Íslandi, bæði skilanefndirnar og jöklabréfin, það eru 1.000 milljarðar sem þarf að skipta yfir í bréf — er það markmiðið að innlendi sparnaðurinn sé þá dauður og farinn?