140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ástæða fyrir því að þessi tillaga er ekki í þingsályktunartillögunni. Hún er nokkuð sem okkur framsóknarmönnum hugnast ekkert sérstaklega vel. Eins og ég kom inn á í ræðu minni hefur arðurinn af lágu orkuverði síðustu 40 ár skilað sér til neytenda fyrirtækja og heimilanna allan tímann. Það er gríðarlega mikilvægt að við ráðum sjálf yfir auðlindinni og séum ekki í þeirri stöðu að risastór aðili hafi heilt byggðarlag eða landshluta á valdi sínu. Það eru dæmi um það frá Bandaríkjunum þar sem menn hafa gert samninga um álver til einhvers tíma. Menn byggðu upp virkjanirnar og voru með þær til 50 ára og síðan eftir 50 ár áttu þeir að skila því til baka en þá sögðu þeir: Ef við fáum ekki framlengingu á þessum samningi erum við farnir burtu með álverið. Þá stóð eftir heilt byggðarlag sem ekki gat boðið upp á neina atvinnu. Stjórnmálamennirnir þar ytra, hvar í flokki sem þeir standa, hafa sagt: „Don't go there“. Ekki fara þá leið. Þetta skulið þið ekki gera. Lærið af reynslu okkar, ekki láta mjög stóra fjársterka aðila stjórna því hvað verður um auðlindina með því að tengja þá 100% við atvinnusköpunina.

Að því leyti er hugmyndin um sæstreng góður kostur því að þá hefur maður alltaf val um að selja orkuna eitthvert annað. Gallinn við að selja orkuna eitthvert annað er að þá fer atvinnan burtu. Þess vegna þarf að skoða kostina og gallana við þetta allt saman og sjálfsagt verður sá kostur sem hv. þingmaður nefndi skoðaður af einhverjum, en verður ekki gert í þessari þingsályktunartillögu því að okkur hugnast ekki sú leið.