143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

samgöngur við Vestmannaeyjar.

[11:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað er þetta mál sem fyrrverandi ráðherra og núverandi hv. þingmaður þekkir mjög vel. Samgöngur til Eyja eru til stöðugrar umræðu og einnig sú staða sem upp hefur komið í Landeyjahöfn.

Á fjárlögum þessa árs voru 250 millj. kr., eins og ég geri ráð fyrir að þingheimur þekki, sem gert var ráð fyrir að vinna með í sambandi við ákveðnar breytingar á höfninni, sem er viðvarandi verkefni og stærra en nokkur hafði óskað að yrði eða talið að yrði. Eins er farið í gang, eins og hefur verið upplýst, útboð vegna hönnunar á nýrri ferju. Það er löngu ljóst og það vita það allir að Herjólfi var ekki ætlað að sigla í Landeyjahöfn. Það skapar ákveðin vandræði og gerir að verkum að samgöngur til Eyja eru oft og tíðum stopular. Við höfum undanfarna mánuði einnig leitað leiða til að koma því þannig fyrir að önnur ferja sigli, þó ekki sé nema tímabundið. Sú vinna er farin í gang og hefur verið um nokkurt skeið þannig að útboðið er hafið. Önnur ferja hefur bæst við sem reyndar er ekki bílferja heldur flytur fólk en skiptir líka máli.

Hvað varðar flugvöllinn er það hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að ekki gengur að skerða flug til Eyja á sama tíma og þessi óvissa er í samgöngum, sérstaklega hvað varðar verkfallið. Engu að síður, eins og kom fram í fréttum í gær, hafði Isavia haft samráð við Vestmannaeyjar um þetta mál og talið að þetta mundi ganga upp, en svo er ekki þannig að því hefur verið breytt. En hvað varðar flugvallarstarfsemina þarna almennt og annars staðar á landinu ætti þingheimi líka að vera ljóst að það er ákveðinn niðurskurður og hefur verið í framlögum til innanlandsflugvalla sem gerir að verkum að Isavia verður að skoða ákveðna þætti. Skilaboðin frá mér sem innanríkisráðherra til þeirra í því samhengi hefur verið alveg skýrt; allar breytingar verður að vinna í sem bestri sátt við heimamenn á hverjum stað. Við vonum að ekki komi til mikillar þjónustuskerðingar en við gætum verið að horfa upp á einhverjar breytingar á þjónustu á flugvöllum landsins á seinni hluta ársins.