143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýst kannski ekki um að allir ráðherrar sitji hér á bekk en að mínu viti er full ástæða til að gera kröfu um að formaður Sjálfstæðisflokksins sitji einhverja stund undir umræðunni. Það segi ég ekki síst vegna þess að í morgun voru gefnar yfirlýsingar, eins og hér hefur verið greint frá, og rifjaðar hafa verið upp yfirlýsingar sem gefnar voru í kosningabaráttunni, mjög afdráttarlausar. Ef einhver vending er að verða, sem er af hinu góða, eins og allt eins má túlka orð hæstv. heilbrigðisráðherra hér í morgun, ef vilji er til þess, þá getur það vísað í báðar áttir. En ég held að við tölum ekkert minna þó að þeir komi hér í sal, við óskum eftir nærveru þeirra til að skiptast á skoðunum við þá. Um það snýst málið.

Það má þakka fyrir það að tveir þingmenn úr stjórnarliðinu hafa verið ágætlega duglegir við að taka þátt í andsvörum og umræðunni en það er sjálfsagt mál að ráðherrar, sem bera ábyrgð á ríkisstjórninni, sitji að einhverju leyti undir þessari umræðu og hægt er að óska eftir því að fundur sé stöðvaður, og var gert hér ekki alls fyrir löngu þegar ráðherra vantaði í sal.