144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:18]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu skoðaði velferðarrráðuneytið það ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hvort rétt væri að setja þetta undir ákvæði laga sem falla undir viðkomandi ráðuneyti. Þá hefði mátt velta fyrir sér, ef það hefði orðið niðurstaðan, hvort það hefði getað farið til efnahags- og viðskiptanefndar eða hugsanlega til atvinnuveganefndar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að setja þetta undir þessi lög og samkvæmt því hvernig verkum hefur verið skipt á milli nefnda í þinginu er allsherjar- og menntamálanefnd með jafnréttismálin.

Síðan vil ég líka benda hv. þingmanni, eins og ég gerði aðeins fyrr í máli mínu, á bls. 4, 5 og 6 þar sem farið er í gegnum mismunandi mál sem hafa komið upp. Fólk hefur leitað réttar síns á grundvelli þessarar tilskipunar vegna mála á sviði tryggingamála og fjármálaþjónustu, veitingar heilbrigðisþjónustu, aðgangs að hótelum, veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum, álagningar skatta, húsnæðismála og aðgangs að almenningssamgöngum, menntun og fjölmiðlum. Hins vegar hafa ekki mörg mál komið til kasta Evrópudómstólsins eða EFTA-dómstólsins þar sem ágreiningur hefur grundvallast á túlkun á ákvæðum tilskipunarinnar.