145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

mótvægisaðgerðir vegna viðskiptabanns á Rússland.

[10:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki reisa sig með því að fara að blanda óskyldum hlutum inn í þetta mál. Ég sagði ekkert einasta orð um réttmæti þess að Ísland tæki þátt í þessum aðgerðum. Þetta eru afleiðingar þeirra ákvarðana sem ég er að ræða hér og spurningin er hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í því. Við höfum reyndar rætt í umræðum um utanríkismál um pólitíska þátt málsins. Ég hélt honum algjörlega fyrir utan þetta.

Auk þess veit ég, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að það stefnir í rýra loðnuvertíð. Ég er ekki það illa upplýstur um sjávarútvegsmál og byggðamál á Íslandi, ef hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því.

Hæstv. ráðherra vill að ég komi með uppbyggilegar tillögur. Já, ég skal gera það. Það á að setja landverkafólkið á laun, á tryggingu, að minnsta kosti í sambærilegan tíma og það hefði haft vinnu á sæmilegri vertíð við frystinguna og skoða hvaða áhrif þetta hefur á heilsárstekjur þeirra og það á að bæta sveitarfélögunum upp tekjutap vegna tapaðs útsvars og aflagjalda. Það eru lágmarksmótvægisaðgerðir.

Sem betur fer þarf ekki að hafa áhyggjur af fyrirtækjunum. Þau eru stór og sterk og standa þetta af sér. En landverkafólkið og sveitarfélögin eiga að fá stuðning. Það er ekki hægt (Forseti hringir.) að láta herkostnaðinn af þessari utanríkisstefnu landsins, hvað svo sem við segjum um réttmæti eða ekki réttmæti hennar, óskylt mál, (Forseti hringir.) lenda á þessum aðilum. Eða ætlar hæstv. ráðherra sjálfur með reikninginn norður á Þórshöfn, (Forseti hringir.) reikninginn norður á Vopnafjörð, reikninginn austur á Djúpavog?