145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hafa beðið um þessar umræður. Það er mjög nauðsynlegt að við förum upplýst inn í það sem fram undan er. Mig langar af því að tíminn er stuttur að lesa greiningu eftir rithöfundinn Bergsvein Birgisson sem mér finnst mjög góð og segja í hnotskurn það sem ég segja vildi, með leyfi forseta:

„Samningunum sjálfum, sem einmitt eru settir fram í nafni „aukins gagnsæis“, á að halda leyndum fyrir almenningi þangað til þeir eru samþykktir og undirritaðir. Þeir sem að baki standa eru með réttu hræddir við afleiðingar þess ef almenningur fær að vita um hvað málið snýst. Í stuttu máli er hér um að ræða endanlegan sigur hinna ríku yfir restinni, sem ekki mun geta huggað sig við hugtök eins og lýðræði lengur. Með orðum Joseph E. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þjóna slíkir samningar hagsmunum ríkasta hóps amerískrar og alþjóðlegrar fjármála- og viðskiptaelítu „á kostnað allra annarra“ (New York Times 15. mars 2014). Skýrsla Evrópuráðsins styður hér, TTIP-samningurinn mun gefa hagvöxt upp á 0,01 af landsframleiðslu, nokkrir óveðursdagar til eða frá hafa meira að segja.

Gulrótin er samt sem áður að „bæta hag fyrirtækja“ og „fjarlægja verslunarhindranir“. Skoðum skuggahliðarnar. Eftir því sem lekið hefur m.a. á Wikileaks um þessa samninga, er mælt fyrir auknu valdi til stórfyrirtækja, m.a. gegnum enn sterkari gerðardóm utan við þjóðbundin og alþjóðleg lög og reglugerðir. Að baki þessum „einkavædda dómstól“ standa 75.000 fyrirtæki, sem geta lögsótt þjóðríki ef lög þeirra og reglugerðir brjóta í bága við „framtíðarhag fyrirtækis“. Málskostnaður mun velta á tugum milljarða fyrir þjóðríki, líkurnar á að vinna eru hverfandi.“

Ég mun halda áfram (Forseti hringir.) að lesa þessa grein þegar ég kemst í síðari ræðu.