149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

bætt kjör kvennastétta.

519. mál
[16:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt um er nú unnið að því að innleiða jafnlaunastaðal hjá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. Ég vonast til þess að til lengri tíma takist að ná þeim markmiðum sem með innleiðingunni er stefnt að. Þannig verði verkefnið sem í þessu felst til framfara fyrir vinnumarkaðinn í landinu. Þessari innleiðingu er ætlað að koma á og viðhalda launajafnrétti á vinnustöðum. Jafnlaunastaðallinn tekur aftur á móti ekki á launamun á milli vinnustaða og markaða en það er viðfangsefni þingsályktunartillögunnar og þessarar fyrirspurnar.

Það er hægt að segja á þessum tímapunkti að á vettvangi kjaramálaráðs, sem er samráðsvettvangur ríkis, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, liggja fyrir lokadrög að sameiginlegri launastefnu aðilanna. Þessi stefna verður vonandi kynnt fljótlega. Markmið sameiginlegrar launastefnu er að tryggja jafnræði í launasetningu opinberra starfsmanna, efla gagnsæi um laun, önnur kjör og launaþróun og tryggja samkeppnishæfni hins opinbera á vinnumarkaði. Í stefnunni er einnig fjallað um að ríki og sveitarfélög muni saman vinna að betri launatölfræði og samræmdri nýtingu upplýsinga um laun og launaþróun. Aðilarnir sammælast einnig um það, þ.e. opinberir vinnuveitendur, að vinna saman að greiningu á launamun og samræmingu kjara milli markaða.

Opinberir vinnuveitendur munu vinna að þessu á næstunni og munu auðvitað í framhaldinu og í réttu samhengi eiga í samtali við stéttarfélög og heildarsamtök opinberra starfsmanna.

Hvað varðar greiningarvinnuna hefur hún staðið yfir. Hún hefur staðið yfir í lengri tíma vegna þess að í tengslum við breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna haustið 2016 var skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að í framhaldinu yrði farið í það verkefni að meta launamun milli hins opinbera og almenna markaðarins. Sú vinna er í gangi með þátttöku heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Niðurstöðu þeirrar greiningarvinnu er að vænta á næstu mánuðum en eins og ljóst má vera er það flókið viðfangsefni sem menn hafa ráðist hér í. Ef vel tekst til getur niðurstaða þeirrar vinnu orðið innlegg í umræðu um launakjör ólíkra starfsstétta.

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að maður vilji leyfa sér að vera bjartsýnn á að það fáist niðurstaða í greiningarvinnunni sem allir aðilar eru sammála um að byggja á er það ekki reynsla undanfarinna ára, eða áratuga ætti ég kannski frekar að segja, að auðvelt sé að fá aðila á opinbera markaðnum annars vegar og almenna hins vegar til að líta mál af þessum toga sömu augum. Þar inn í spila fjölmargir þættir. Framan af voru lífeyrisréttindin sérstök hindrun í vegi þess að hægt væri að bera saman kjörin. Það var þess vegna ekki tilviljun að ákveðnu skrefi var náð í lok árs 2016, en það var einmitt þá sem við gerðum breytingar á lífeyriskerfunum með þeim hætti að hægt var að taka þann þátt til hliðar og segja: Nú höfum við náð að jafna réttindin hvað lífeyrismálin varðar og getum þá beint sjónum okkar frekar að hinu. Það sem verður áfram inni í umræðunni, sé ég fyrir mér, eru ýmis réttindatengd atriði, t.d. lög sem gilda um opinbera starfsmenn. Við getum tekið sem dæmi áminningarferli og aðra slíka þætti. Hvernig ætla menn að meta það til virðis þegar verið er að bera saman kjör á almenna markaðnum og hinum opinbera? En hafandi sagt þetta bind ég vonir við að við fáum góða niðurstöðu.

Ég hef hér lýst tveimur dæmum um (Forseti hringir.) samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins sem snúa að þessari fyrirspurn og það hefur verið ágætt samstarf sömuleiðis um launatölfræðina. Við vitum að vönduð launatölfræði er forsenda þess að hægt sé að ráðast í greiningu á kjörum ólíkra starfsstétta og kynbundnum launamun.