149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

friðun hafsvæða.

545. mál
[17:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Rétt til að bregðast við því sem hér hefur komið fram, bæði í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar og hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar, held ég að þetta komi allt saman í því sem okkur skortir svolítið hér á Íslandi og það er skýrari stefna í málefnum hafsins eins og hér var nefnt.

Ég vil nefna að á vegum þriggja ráðuneyta hefur verið í gangi vinna við að fara yfir stefnu Íslands varðandi verndarsvæði í hafi í nokkuð langan tíma. Ég man ekki alveg hvenær hún var sett í gang, en hún hefur legið í dvala nokkuð lengi. Ég hef ýtt við henni aftur, gerði það fyrir nokkrum mánuðum. Þarna kemur náttúrlega ekki bara fram sýn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins heldur líka ráðuneytis sjávarútvegsmála. Ég hef rætt við ráðherra sjávarútvegsmála um þessa vinnu og lýsti yfir þeirri von minni að við gætum skýrt stefnuna betur, bæði innan lands og einnig út á við. Ég tel að þessi stefna þurfi að vera skýrari. Ég mun beita mér fyrir því í samráði við aðra að hún verði skerpt og við fáum einhvern sýnilegan áfanga í þeim efnum sem fyrst, vonandi bara á þessu ári, t.d. út frá því að klára þá vinnu sem sett var í gang fyrir nokkrum árum og taka síðan stöðuna þegar því sleppir.

Ég tek einnig undir áhyggjur hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar af sumum þeim þáttum sem hann nefndi áðan, þar með talið hægvaxta kalkþörungum.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hún er mjög tímabær og ég er þakklátur fyrir hana.