150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að taka á vandanum þannig að við bjóðum upp á einhverjar framtíðarlausnir sem geri Ísland sterkara þegar við erum komin upp úr þessum öldudal og þá um leið samkeppnishæfara og kannski vonandi feti framar en önnur lönd til að takast á við ýmsar áskoranir. Ég undirstrika að samráðið má ekki vera einhliða. Samráðið má ekki bara felast í því að stjórnarandstaðan komi hingað og segi: Við verðum að standa saman, og stjórnin sjálf komi og segi: Við þurfum að standa saman, og það felist bara í því að ríkisstjórnin komi með einhliða tillögur og ekkert samtal eða samráð sé í gangi.

Af hverju er ég að segja þetta? Til að koma í veg fyrir upphlaup sem getur ekki bara verið uppboðsmarkaður af hálfu stjórnarandstöðu eða tiltekinna flokka þar, heldur er það ekki síður innan stjórnarflokkanna sem ég óttast að menn fari í eitthvert uppboðskapphlaup.

Ég brýni bæði formann efnahags- og viðskiptanefndar og aðra stjórnarþingmenn til að muna það, og alla þingmenn hér inni, að samtalið skiptir máli. Ef við virðum það ekki getur fjandinn orðið laus. Þetta er einfaldlega brýning mín til hv. þingmanns sem ég fagnaði sérstaklega að sagði áðan að hann óskaði eftir meira samtali, eins og ég skildi hann, við fjármálaráðherra og eftir atvikum ríkisstjórnina. Það er öflugt fólk, hvort sem það er öflugra eða ekki, í efnahags- og viðskiptanefnd sem og í fjárlaganefnd og þeim nefndum sem þurfa að takast á við hin ýmsu flóknu viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir. Það er enginn hér inni, sama hvaða flokki hann tilheyrir, fullyrði ég, sem mun draga eitthvað af sér við það að leysa flókin viðfangsefni samtímans.