151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

nýjustu aðgerðir vegna Covid-19 og horfur í ferðaþjónustu.

[13:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja varðandi ráðstafanir sem kynntar voru í gær, að reynsla okkar er að það að grípa snemma inn í, þegar merki berast um að smit sé komið út í samfélagið utan sóttkvíar, muni skila mestum árangri, bæði til að vernda líf og heilsu fólks og ekki síður í efnahagslegu samhengi, að betra sé að gera það, þrátt fyrir erfiðleika sem fylgja lokunum og fjöldatakmörkunum, en að sitja uppi með umfangsmeiri aðgerðir síðar sem þurfa að vara lengur.

Varðandi sérstakrar ráðstafanir til að bregðast við nýjustu sóttvarnaaðgerðum er mikilvægt að muna að við erum með lokunarstyrki í gildi út maí og við munum framlengja þá samkvæmt tillögu sem lögð verður fyrir þingið. Við styðjumst sömuleiðis enn við viðspyrnustyrki og það er úrræði sem við hyggjumst sömuleiðis framlengja. Þeir gilda langt inn í sumarið samkvæmt gildandi regluverki. Önnur úrræði eru enn virk, eins og laun í sóttkví, frestanir á skattgreiðslum eru enn í gildi og við boðum það nú að þeir gjalddagar sem koma í sumar verði teknir til endurskoðunar og fólk muni eiga kost á því að dreifa þeim í allt að tvö ár til viðbótar. Og svo mætti áfram telja. Það er því ekkert sérstakt að gerast akkúrat núna vegna nýjustu ráðstafana sem kallar á viðbótaraðgerðir.

Varðandi fjölda ferðamanna, sem ég get komið betur inn á síðar, tel ég einfaldlega að enn sé uppi mikil óvissa og ekki muni rætast úr henni fyrr en við sjáum betur til lands varðandi bólusetningaraðgerðir, bæði hér heima og annars staðar.