151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað margt sem spilar hér saman. Þrátt fyrir að ég geri mikið úr því að stefnumörkun stjórnvalda þurfi að vera skýr og skipti máli og ákvarðanir sem teknar eru á þeim grundvelli þá er það auðvitað líka svo að sá kraftur sem er í umhverfinu og þeir kraftmiklu einstaklingar sem stökkva af stað með nýsköpunarfyrirtæki, ný fyrirtæki, taka stór skref, sækja fjármagn o.s.frv. — það er ekki allt stjórnvöldum að þakka, en okkar verkefni er að hafa umhverfið eins skýrt og skilvirkt og við mögulega getum.

Við horfum t.d. á marga nýja sjóði verða til. Við fundum fyrir auknum krafti við áform um að koma á fót Kríu, fjárfestingarsjóði sem á að styðja við stofnun vísisjóða, sem síðan fjárfesta í einstaka fyrirtækjum. Við finnum það með áformum um að leggja niður NMÍ í þeirri mynd sem sú stofnun er, það er ákall um að svæðin sjálf hafi skýra sýn á það fyrir hvað þau vilja standa, hvar þau vilja sækja fram. Það hefur einfaldlega skilað ótrúlega miklum árangri. Þau hafa hlaupið af stað. Það hafa orðið til ótrúlegar hugmyndir sem nú birtast í ótrúlegum fjölda umsókna um hvatastyrki Lóu, sem eru, ég bara viðurkenni það, margfalt fleiri en ég átti von á. Það sýnir bæði gróskuna og kraftinn en líka þörfina fyrir að svæðin sjálf geti sótt fram á sínum forsendum. Endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar er almenn aðgerð fyrir atvinnulífið en það hversu mikið hún hefur vaxið skiptir máli. Við sjáum að þessi nýsköpunarfyrirtæki eru nánast öll með tölu að ráða starfsfólk nánast í hverjum einasta mánuði. Áformin um Nýsköpunarmiðstöð Íslands byggja á því að við búum til stefnu með ákveðin leiðarljós og ákveðinn fókus og við erum auðvitað að færa hluta þeirra verkefna sem áður voru hjá NMÍ á annan stað í stjórnkerfinu þar sem þau eiga betur heima. Að koma á fót tæknisetri er skref sem við höfum rætt mjög lengi og ég trúi að muni skila miklum árangri. Við erum með þessu heilt yfir að stórauka stuðning við nýsköpun (Forseti hringir.) og við finnum og sjáum á svo marga mælikvarða þennan ótrúlega mikla aukna kraft í nýsköpunarumhverfi á Íslandi.