151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú erum við með þessa fjármálaáætlun ef svo mætti kalla. Þetta er eiginlega hálfmóðgandi plagg enda er varla hægt að segja að í þessu felist áætlun. En ekki batnar það þegar markleysið er síðan sett í samhengi við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í nýsköpunarmálum á yfirstandandi kjörtímabili og reynt að horfa út frá því til framtíðar. Ég velti því fyrir mér, í ljósi þess sem hæstv. ráðherra segir um að allt sé í frábærum uppgangi í nýsköpunarmálum, á hvaða mælikvarða verið er að sýna fram á meiri árangur. Ég bið hæstv. ráðherra um að nefna einn vegna þess að ég veit ekki um nokkurn. Ég heyrði að hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir talaði um svokallaðan Global Innovation Index eða alþjóðlega nýsköpunarmælikvarðann en samkvæmt honum var Ísland í 11. sæti árið 2017, sem sagt í byrjun þessa kjörtímabils, en fer út úr þessu kjörtímabili tvöfalt neðar á listanum. Ef við skoðum hvar við skorum hátt þá er það í þremur flokkum. Það er í fágun í viðskiptum, sem er undir fyrirtækjunum komið. Það er í sköpunarframleiðni, sem þýðir bara að Íslendingar láta ekki segja sér að hætta að vera skapandi, og svo er það þriðja stofnanaumhverfið sem ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra sé í þann mund að slátra. Við skorum undir meðallagi í markaðsfágun, í mannauði og rannsóknum og tækni og innviðum, allt saman atriði sem við hefðum getað lagt töluvert mikið í að byggja upp á núverandi kjörtímabili í staðinn fyrir að rífa niður.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Á hvaða hátt er það góður árangur í nýsköpun að hrapa niður um næstum því helming og á sama tíma að eyðileggja eitt af því fáa sem okkur gengur vel með án þess að bæta hitt nokkuð?