151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fullvissa hann um að ég er farþegi um borð í hinum umhverfisvæna strætisvagni með honum og fagna hverri einustu krónu, hverri einustu milljón sem lögð er í verkefnið. Við fáum bara einn möguleika til að bjarga plánetunni. Það er bara þannig. Ég vek athygli á því að strax árið 2023 og til ársins 2026 verður umfang loftslagsaðgerða orðið mun minna í fjármunum talið ef þetta gengur eftir.

Er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sú að dregið skuli úr fjárframlögum til loftslagsaðgerða? Ég spyr hæstv. ráðherra. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra af hverju framlög til loftslagsmála eru tekin út fyrir sviga, búið að ákveða að auka fjárveitingar til ársins 2031? Af hverju til ársins 2031? Af hverju ekki til 2026 eða jafnvel bara til 2040? Er verið að draga upp einhver leiktjöld, einhver tjöld til að uppfylla ákvæði sem við höfum gengist undir, Parísarsáttmálann, og undirbúa sig fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem verður haldin í Glasgow í haust þar sem við verðum að vera með tíu ára plan? Er verið að stilla upp einhverjum leiktjöldum? Eru þetta sjónhverfingar, einhvers lags pótemkintjöld? Fylgir hugur máli? Eigum við einhvern möguleika? Er nokkur von til að þetta náist miðað við núverandi áherslu, bæði í ljósi aðgerða og fjárveitinga ef við gerum ekki betur?

Það er ekki annað hægt, virðulegur forseti, en að setja þetta mál allt í samhengi við ósannfærandi og veik viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 kreppunnar og viðspyrnu sem við þurfum að einblína á. Alls staðar í nágrannalöndunum sjáum við dæmi um þetta. Ríkisstjórn Noregs hefur hafið tugmilljarða átök í föngun og flutningi kolefnis. Danir hafi sett á fót grænan fjárfestingarsjóð sem styður við vistvæna uppbyggingu og orkuskipti og þróun loftslagslausna og í fyrra stofnuðu Skotar ríkisrekinn fjárfestingarbanka sem fjárfestir í grænni atvinnuþróun og verkefni sem stuðla að kolefnishlutlausu samfélagi. Svona mætti lengi halda áfram. Vantar ekki þarna miklu stórtækari viðbrögð, herra forseti, afgerandi aðgerðir og skýra sýn?