151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í júní í fyrra kom fram að með þeim aðgerðum sem þá var búið að meta árangur af var talið að 35% samdráttur myndi nást. Með aðgerðum sem var búið að setja fram en átt eftir að meta, vegna þess að þær voru enn í útfærslu og margar þeirra eru enn í útfærslu, var talið að við ættum að geta komist upp í 40–46%. Það sem við erum að gera núna með því að bæta þessum milljarði inn er innspýting til að geta haldið áfram með þessi verkefni og tíminn þarf að leiða í ljós nákvæmlega hverju þau munu skila. En markmið stjórnvalda er alveg skýrt. Það er að ná 55% samdrætti í samfloti við Noreg og Evrópusambandið.

Ég er ekki sammála því að það séu ekki efnislegar breytingar þegar kemur að loftslagsmálunum á milli fjármálaáætlunarinnar í desember og núna, einfaldlega vegna þess að hér erum við að bæta inn í fjármagni fyrir náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum, aukinn stuðning við orkuskipti, betri almenningssamgöngur og innviði og loftslagsvænni landbúnað. Það sem liggur þar að baki er t.d. í orkuskiptunum, sem ekki hefur áður verið gert, að setja fjármagn í verkefni sem snúa að orkuskiptum í þungaflutningum og sérstaklega orkuskiptum í ferðaþjónustu. Það skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að fólksbílaflotinn sem keyptur er inn af bílaleigunum og skilar sér á endursölumarkað er um 40–50% og það skiptir mjög miklu máli að sífellt stærri hluti hans verði loftslagsvænni eða umhverfisvænni bifreiðar. Svo minni ég enn og aftur á frumvarp sem fjármálaráðherra mælti fyrir í desember, (Forseti hringir.) á svipuðum tíma og auknar skuldbindingar Íslands komu fram, um grænu fjárfestingarnar sem munu skipta máli og verða gott fordæmi.