151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér var tæpt á mörgu og undir lokin sumu býsna stóru sem við þyrftum örugglega hálftíma til að útskýra. En það er þó þannig að á vegum fjármálaráðuneytisins er starfandi starfshópur vegna þess að við erum auðvitað að fara úr því að hætta að leggja á bensín- og dísilgjöld og fara út í einhvers konar notkunargjöld. Tækninni þar fleygir fram þannig að ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér í dag að segja hvað mér finnist líklegast. En við förum hins vegar í þetta kerfi fyrr en seinna, útfærslu á því þar sem einhvers konar notkun tekur við af skatti á orkugjafana.

Varðandi jarðgangaáætlun þá er ég sammála hv. þingmanni að það er synd og skömm að við skulum ekki hafa verið komin fyrr með langtímaplön. Þegar ég segi langtímaplön þá er ekkert óeðlilegt að tala um 20, 30, 40 ár þegar kemur að svona stórum og miklum framkvæmdum. Þess vegna lagði ég áherslu á það að í síðustu samgönguáætlun birtist aftur jarðgangaáætlun eins og var einu sinni. Núna er Vegagerðin búin að vera að vinna að heildarendurskoðun sem verður í næstu samgönguáætlun, miklu ítarlegri jarðgangaáætlun. Þá verðum við betur í stakk búin til að forgangsraða og ákveða hvaða verkefni koma næst og síðast en ekki síst að koma þeim skilaboðum til fólksins sem bíður eftir því að vita þetta og eyða óvissu varðandi það hvernig menn sjá fyrir sér að samgöngur til viðkomandi byggðarlaga breytist á næstu árum og áratugum. Það skiptir máli að eyða óvissu.

Varðandi sveitarfélögin er það nú bara þannig, svo ég vísi í þessa áætlun, að staða þeirra vænkast mun hraðar en ætlað var, skuldsetning þeirra var miklu minni en menn óttuðust og geta þeirra til fjárfestinga er meiri (Forseti hringir.) og eins og mér hefur verið sagt eru í fjárhagsáætlunum þeirra umtalsverðar fjárfestingar áætlaðar bæði í ár og á næsta ári.