151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Af hverju erum við að fara yfir það sem við höfum gert og þá hækkun sem hefur átt sér stað? Það er vegna þess að við erum líka að segja að þegar við segjum að við séum að fara í stórsókn þá höfum við getað staðið við það. Það sama mun líka eiga sér stað núna. Við höfum farið í mikla undirbúningsvinnu, ég fullyrði það, vegna þjóðarleikvanga, bæði fyrir inniíþróttir og líka knattspyrnuna. Hún hefur aldrei verið komin jafn langt. Ég vil líka nefna að í þessari áætlun er tekið skýrt fram varðandi þá nemendur sem hafa komið inn í kerfið að að sjálfsögðu verður það fjármagnað áfram. Það er nefnt hérna sérstaklega. Við vitum að það hafa komið þúsundir inn í menntakerfið og þess vegna hefur ríkisstjórnin aukið framlög til þess. Þetta þekkja framhaldsskólarnir. Þetta þekkja háskólarnir og við höfum svo sannarlega staðið við stóru orðin. Við værum ekki með alla þessa nemendur í kerfunum okkar ef við hefðum ekki fjármagnað það með þessum hætti. Það munum við gera áfram. Framtíðarsýnin er auðvitað fólgin í því að fjárfesta enn frekar í menntun og menningu. Við höfum sýnt að við getum gert það og við munum gera það áfram í framtíðinni.