152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál.

[15:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það hefur mikið verið í gangi í samfélaginu síðustu vikur eins og við þekkjum, kosningar, bankasala og annað, og fyrir vikið hafa mörg mikilvæg mál ekki fengið þá umræðu sem þau eiga skilið, til að mynda þessi skýrsla sem var nefnd hér áðan, skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál. Þetta hefur verið allt of lítið rætt. Þetta er vönduð úttekt en niðurstöðurnar eru því miður sláandi og ekki fagur vitnisburður um störf þessarar ríkisstjórnar í þágu þess stóra hóps sem glímir við geðrænan vanda. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að það er ákveðin mismunun innbyggð í geðheilbrigðiskerfið og það sitja ekki allir við sama borð. Aðgengi að þjónustu er misgott, til að mynda vegna búsetu, út af efnahag og vegna tegundar geðvanda. Við erum sem sagt á þeim stað, við Íslendingar, að veiku fólki er mismunað og þessi mismunun er innbyggð í geðheilbrigðiskerfinu, segir í skýrslunni. Kerfið tryggir sem sagt fólkinu okkar mismunun. Það tryggir ekki jafnræði. Það tryggir mismunun. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta sé algerlega ólíðandi og skýrslan staðfesti að það er lítil innstæða fyrir þeirri fullyrðingu stjórnarflokkanna í aðdraganda síðustu kosninga að geðheilbrigðismálin hafi verið í forgangi. Einnig þarf að nefna, sem er þvert á ítrekaðar fullyrðingar stjórnarflokkanna, að framlög til geðheilbrigðismála eru skammarlega lág. Umfang geðheilbrigðismála innan heilbrigðiskerfisins er um 30% af heildinni en fjárframlögin til geðheilbrigðismálanna eru bara 5% af heildinni. Það er mikið gert úr auknu fjármagni til geðheilbrigðismála í aðdraganda síðustu kosninga, ekki síst af hálfu VG, en tölurnar í skýrslunni segja réttari og sannari sögu og hún er sú að heilbrigðiskerfið okkar er svo undirfjármagnað núna á fimmta ári þessarar ríkisstjórnar að fullyrða má að algjör kyrrstaða hafi ríkt í þessum málaflokki.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, um leið og ég hvet landsmenn, alla þingmenn og fjölmiðla til að kynna sér efni þessarar svörtu skýrslu, hvort það sé ekki áfellisdómur yfir þeim flokkum sem hafa farið með völd undanfarin ár að staðan sé svona slæm, svona grafalvarleg eins og skýrslan ber með sér.