152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni. Fyrst vil ég segja varðandi fjármögnunina að þegar við fullyrðum að það sé undirfjármögnun þá er það fyrsta að átta sig á hvað mikið fjármagn fer í þennan málaflokk. Það hefur bara aldrei legið fyrir. Þess vegna fagna ég þessari skýrslu. Þetta er fyrsta skýrslan sem tekur heildræna nálgun á hvað fer í málaflokkinn.

Það er annað sem hv. þingmaður dregur hérna fram og kemur mjög skýrt fram í skýrslunni, en það er þessi skörun sem er í málaflokknum og við ræðum oft um og vísum til sem grárra svæða. Það er fjölmargt sem við erum að gera í skólunum, í sveitarfélögunum, á málefnasviðum og í málaflokkum félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Áður en við förum að fullyrða hvort um undirfjármögnun sé að ræða eða hvort við séum að gera nóg eða ekki nóg — og líklegast erum við ekki að gera nóg vegna þess að ég held að það sé það eina sem við getum fullyrt, hvað vantar upp á — þá verðum við að greina hlutina betur. Það kemur jafnframt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Það sem mér finnst líka gott í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að hún dregur fram hvar þessi gráu svæði liggja. Það sem ég tek mest til mín og ráðuneytisins í þessu er að sú stefna sem við settum fram síðast — við vorum ekki nógu dugleg við það, og þá er ég að vísa í aðgerðaáætlunina þar sem við vorum að ábyrgðarvæða, sem okkur ber að gera þegar við erum að framfylgja stefnu, þ.e. að fylgja hlutunum eftir og stilla upp mælikvörðum.

Hef ég hug á því að gera meira í þessum málaflokki og fylgja því eftir sem blessunarlega hefur verið farið af stað með? Ég tel að hér hafi verið gert þó nokkuð á undanförnum árum og meira en áður og við þurfum að gera miklu betur. Það er það eina sem ég get fullyrt.

En já, ég vil draga eitt fram hér sem mér finnst standa upp úr í nýrri stefnu sem ég vonandi fæ að mæla fyrir fljótlega, og það er þetta sem lengi hefur verið kallað eftir, (Forseti hringir.) sem er geðráð á breiðum samráðsvettvangi til að ná utan um málaflokkinn. (Forseti hringir.) Ég held að það sé algjört lykilatriði fram veginn.