152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

biðlistar eftir valaðgerðum.

506. mál
[17:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hér er einmitt mönnunarvandinn nefndur sem eitt af vandamálunum en ég held að lausnin á biðlistunum sé líka ákveðin lausn á mönnunarvandanum. Fjölbreyttari rekstrarform og fjölbreyttari starfsaðstæður sem við höfum upp á að bjóða fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sem vill í auknum mæli ráða sínum starfsaðstæðum sjálft og fá að geta ráðið meira sjálft, þýðir að það er miklu frekar til í að flytja heim frá útlöndum og fara að vinna hér á landi eða koma aftur inn í heilbrigðisgeirann, ef það fær meira svigrúm og meira að segja um það hvernig starfsvettvangurinn er. Ég held því að það liggi mikið á að hafa þetta í fjölbreyttu rekstrarumhverfi, hvort sem það er setur uppi á Akranesi, Klíníkin eða fleiri aðilar sem vilja bjóða úrræði. Þá eru meiri líkur á að við fjölgum heilbrigðisstarfsfólki sem vill vinna hér á landi. Það er því lausn á mönnunarvandanum ef biðlistavandinn er leystur.