152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aukin nýting lífræns úrgangs til áburðar.

492. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. matvælaráðherra svörin og hv. þingmanni sem blandaði sér í umræðuna. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að nýta lífrænan úrgang betur og meira til áburðar. Þess vegna fagna ég mjög upplýsingum sem ráðherra kom hér með um vegvísi um nýtingu lífræns efnis. Ég vildi gjarnan heyra aðeins meira af því í seinni ræðu. Ég velti dálítið fyrir mér hvort áskoranirnar hér á landi hafi verið sérstaklega greindar eða leiðir til að mæta þeim hér, svo sem eins og rúmmál lífræns efnis miðað við tilbúinn áburð og þá flutningskostnaðurinn sem af því hlýst. Sumt af áburði er með mjög miklu vatnsinnihaldi sem skapar nýjar áskoranir en líka tækifæri í landgræðslunni, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Þá eru það áskoranirnar sem tengjast sýkingarhættu og þar með sjálfsögðum sóttvörnum og ég held að það sé mikilvægt að skoða regluverk um nýtingu lífræns efnis með það í huga að stuðla að nýtingunni án þess að slá af varúðinni. Það er eitt af því sem verður að fara í samhliða eða getur verið hluti af því að vinna vegvísinn. Það er áhugavert að lesa um tilraunir með aukna nýtingu svartvatns, laxamykju, kjötmjöls og alifuglaskíts við landgræðslu, en samhliða innleiðingu hringrásarhagkerfisins og auknum kröfum um söfnun úrgangs getur söfnunin vaxið hratt, t.d. frá fiskeldinu. Markmið okkar allra hlýtur að vera að finna leiðir þar sem hagkvæmasti kosturinn fyrir alla sem framleiða lífrænan úrgang eða lífrænt efni verður að koma honum aftur inn í hringrás náttúrunnar. Það er hagkvæmast fyrir alla; fyrirtæki, einstaklinga og umhverfið.