Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina.

123. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um flutning höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Stefán Vagn Stefánsson og Ingibjörg Isaksen. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kanna á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.“

Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Rarik ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Meginhlutverk Rariks ohf. er að afla raforku og dreifa henni með hagkvæmum hætti til almennings og atvinnulífs. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjón félagsins, m.a. í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjanesskaga og Vestfjarða, að því er fram kemur á heimasíðu þess. Mikilvægi Rariks ohf. fyrir samfélagið í heild er óumdeilt.

Höfuðstöðvar Rariks ohf. eru í Reykjavík. Rarik ohf. er vinnuveitandi um 200 starfsmanna, sem starfa víða um landið. Af þeim starfa um 60 manns á höfuðborgarsvæðinu. Mikill meiri hluti opinberra stofnana og hlutafélaga er á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis eru flestar höfuðstöðvar opinberra stofnana og hlutafélaga þar. Þetta leiðir til þess að yfirgnæfandi fjöldi opinberra starfa stendur einungis einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu eða í nærliggjandi byggðum til boða, eðli málsins samkvæmt. Í IX. kafla grundvallarstefnuskrár Framsóknarflokksins kemur fram að flokkurinn telji það til grundvallarréttinda að fólki sé kleift að velja sér búsetu á landinu þar sem það kýs. Til þess að uppfylla það markmið þarf að tryggja ákveðin búsetuskilyrði um allt land. Með því er m.a. átt við að tryggð séu fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land. Með dreifingu opinberra starfa, t.d. í höfuðstöðvum Rariks ohf., mundi hið opinbera stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land. Á þann hátt er hægt að jafna búsetuskilyrði og gera fólki kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs ásamt því að koma í veg fyrir mismunun sem gerir greinarmun á fólki eftir búsetu.“

Með því að skapa atvinnutækfæri á landsbyggðinni getum við hvatt fólk til að búa áfram í heimabyggð. Flutningur starfa út á land skapar tekjustofna á staðbundnum svæðum og tryggir þar vöxt fyrirtækja og þjónustu. Dreifing opinberra starfa um landið er ekki aðeins til bóta fyrir fólk á landsbyggðinni heldur einnig fyrir samfélagið í heild.

Tillaga þessi var lögð fram á 151. löggjafarþingi og bárust þá umsagnir frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem tóku undir sjónarmið sem hér eru nefnd. Þá sagði í umsögn stjórnar Vestfjarðastofu að flutningur Rarik út á land, eins og hér er lagður til, eigi ekki að fela í sér að stefnt sé að uppbyggingu höfuðstöðva á einum stað heldur eigi að horfa til þess að nýta tækifærið og dreifa núverandi starfsemi höfuðstöðva á starfsstöðvar um land allt og byggja þar á framþróun í tækni og stjórnun fyrirtækja og stofnana. Allt eru þetta sjónarmið sem eru mikilvæg til að vega og meta.

„Eins og nefnt er að framan hefur Rarik ohf. umsjón með 90% af dreifikerfi raforku í landinu, en það nær til Vesturlands, Norðurlands, Austurlands og Suðurlands og 43 þéttbýliskjarna víðs vegar um landið. Af þessu er ljóst að starfsemin er viðamikil og dreifð um landið allt. Finna má bækistöðvar félagsins m.a. á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði og í Ólafsvík. Meginstarfsemi Rariks ohf. fer fram á landsbyggðinni auk þess sem allar virkjanir félagsins eru þar. Þó eru höfuðstöðvar félagsins í Reykjavík. Núverandi staðsetning höfuðstöðvanna er ekki talin endurspegla starfsemina jafn vel og hægt væri.

Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga.

Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Það er þó aðeins gert við rétt skilyrði, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings Rariks ohf. á landsbyggðina.“

Mig langar bara til þess að endurtaka það að starfsemi Rariks, virkjanir, fer fram á landsbyggðinni en höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík. Það er því þess virði að skoða þetta virkilega í því ljósi að það megi segja að það megi þá flytja höfuðstöðvarnar heim. Við verðum að skoða þetta heildrænt og með hag allrar landsbyggðarinnar í huga. Þess vegna legg ég þessa tillögu fram og óska eftir málefnalegri umræðu í atvinnuveganefnd. Ég hef lokið máli mínu.