Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

áfengislög.

135. mál
[16:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er alveg ljóst að okkur greinir þarna á en ég vil draga það fram að miðað við þann ramma sem við búum við núna þá er bara sjálfsagt að styðja þetta mál. En mér finnst við alltaf vera í einhverjum blekkingaleik og við þorum ekki að taka þessi skref í átt að frelsi loksins þegar við fáum tækifæri til að stíga þau skref. Það er flokkur með flokki hv. þingmanns í ríkisstjórn sem kennir sig við frelsi en gerir síðan ekki rass í því að auka frelsi hér í hinum ýmsu efnum, hvort sem það er að treysta fólki til að kaupa sér vín í búðum eða annað. Jú, jú, undir þessum ramma og undir þessari regnhlíf þá er þetta bara fínt og eðlilegt, en ég verð að segja að við erum búin að sjá alla þessa þróun, þessa víkkun, og ég vil undirstrika að síðastliðin 22 ár erum við búin að sjá það að opnun Vínbúðarinnar í átt að meiri aðkomu og greiðara aðgengi hefur ekki leitt af sér aukna vímuefna- og áfengisneyslu ungmenna miðað við þær greiningar sem liggja fyrir. En ég verð líka að draga fram að eftir að hafa hlustað á hv. þingmann komandi úr Framsóknarflokknum þá finnst mér þetta vera dálítið séríslenskt framsóknarferli, að rýmka opnunartíma en treysta ekki fólki til að hafa áfengi í búðum. Mér finnst þetta bara vera sérafbrigði sem hlýtur að vera að einhverju leyti tengt Framsóknarflokknum sjálfum. Ég vil ganga alla leið. Ég vil ekki þetta séríslenska framsóknarfrelsi. Ég vil bara treysta fólki. Punktur.