Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

grunnskólar.

128. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Hér má segja að sé ákveðið frelsismál sem ýtir undir valfrelsi fólks þegar kemur að því að velja skóla með börnum sínum og fyrir þau. Það kemur kannski ekki á óvart að þetta mál er endurflutt í ljósi þess sem ég var að nefna áðan, að það er ekki mikill hljómgrunnur fyrir því að ýta svona svigrúms- og frelsismálum í gegnum þetta þing meðan við höfum þessa ríkisstjórn. Þetta mál hefur verið flutt áður á þremur löggjafarþingum.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um grunnskóla frá 2008, um lögbundin fjárframlög úr sveitarsjóði með það að markmiði að jafna stöðu foreldra óháð því hvort þeir sendi börn sín í sjálfstætt rekinn grunnskóla eða grunnskóla sem rekinn er af sveitarfélagi.

Samkvæmt gildandi lögum er framkvæmdin varðandi umrædd framlög þannig að sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning skv. 43. gr. a laganna á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Þetta er til að ýta undir valfrelsi sem var nýlunda á sínum tíma. Samkvæmt ákvæðinu skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Síðan er kveðið á um það í lokamálslið 1. mgr. ákvæðisins að framangreint hlutfall gildi fyrir skóla með allt að 200 nemendur en framlagið skuli vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Mér er málið skylt þar sem ég var menntamálaráðherra þá og mikill ágreiningur var um þetta á sínum tíma. En við sem stóðum að þeirri ríkisstjórn gátum ýtt þessu máli áfram og þess vegna var komist að samkomulagi, m.a. við sveitarstjórnir og sveitarstjórnarfulltrúa en líka hér inni í þinginu, um að þetta yrði með þessum hætti, að það væri í raun risaskref að viðurkenna valfrelsi foreldra og barna til að velja sér skóla og ákveða í hvaða skóla farið væri í. Framlagið úr sveitarsjóði yrði þá að lágmarki 75% eins og þarna er eða 70% ef skólarnir væru stærri.

Síðan höfum við séð jákvæða þróun. Við höfum séð að það er síður en svo þannig að sjálfstætt starfandi grunnskólar séu ógn við jöfn tækifæri í landinu, miklu frekar hafa þeir ýtt undir flóru skóla sem getur boðið upp á alls konar hluti. Alveg eins og hinir opinberu hafa sjálfstætt starfandi skólar sín sérkenni og það er mikilvægt fyrir börn. Ég hef oft tekið börnin mín þrjú sem dæmi. Hvert og eitt þeirra er mjög mismunandi og ég hefði ekki viljað missa af því að geta valið á milli skóla, þótt valið hafi beinst að því að fara í skóla á milli sveitarfélaga. Á endanum hugsa foreldrar alltaf um það sem er best fyrir börnin, með kostum og göllum, og það sem þarf til að styðja við þau. Því var þetta lykilatriði sem við fengum í gegn á sínum tíma.

Við sáum að eftir að þetta ákvæði varð að lögum reið Garðabær á vaðið á sínum tíma, undir öruggri forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur bæjarstjóra, og samdi m.a. við Hjallastefnuna. Þá var ákveðið að framlögin til Hjallastefnunnar af hálfu bæjarins yrðu 100%, gegn því að ekki væru rukkuð skólagjöld. Það var einmitt þannig sem við vonuðumst til að sveitarfélögin færu að, að þau myndu ákveða þetta sjálf. Þeirra sjálfsákvörðunarréttur var ekki skertur, þau gátu ákveðið hvernig skólasamfélag þau byggðu upp og fóru síðan í svona samtal eins og var gert á sínum tíma milli Garðabæjar og Hjallastefnunnar, allt til þess að fólk gæti valið um fjölbreyttar skólaleiðir fyrir börnin sín.

Að mati flutningsmanna er gildandi ákvæði 43. gr. b síst til þess fallið að létta greiðslubyrði foreldra og þannig stuðla að því að val þeirra á skólum fyrir börn sín grundvallist á faglegum forsendum en ekki kostnaði. Að sama skapi hafa slíkar takmarkanir hamlandi áhrif á framþróun annarra skólastofnana en þeirra sem eingöngu og alfarið eru reknar af sveitarfélögum. Við flutningsmenn teljum að þær opinberu hömlur sem eftir eru á starfsemi skóla skerði til muna umbreytingar í skólakerfi og raski jafnræði aðila til að sinna mismunandi þörfum nemenda.

Það er óumdeilt að þeim mun lægri sem framlög eru með hverjum nemanda, þeim mun meiri kostnaður fellur á foreldra og þar af leiðandi verður sá kostnaður ríkari áhrifaþáttur við val á skóla en aðrir þættir sem slíkt val ætti með réttu að grundvallast á, svo sem hvaða úrræði henti þörfum barna hverju sinni. Hærri framlög með nemendum eru einnig í samræmi við þá skoðun flutningsmanna að fé fylgi nemanda óháð eignarhaldi viðkomandi skóla, þ.e. því hvort skóli er rekinn sjálfstætt eða af hinu opinbera. Það er því skoðun flutningsmanna að núverandi 75% lágmark feli í sér ákveðna mismunun gagnvart foreldrum sem velja sjálfstætt rekna skóla fyrir börn sín enda munu þeir greiða umtalsverð skólagjöld ólíkt þeim foreldrum sem senda börn sín í opinbera grunnskóla. Í ljósi þessa er það mat flutningsmanna að hækka þurfi framlög til sjálfstætt starfandi grunnskóla til að koma í veg fyrir að skólagjöld falli á foreldra í þeim mæli sem nú er. Í þeim tilvikum þegar foreldrum er gert að greiða slík gjöld þá verða þau að vera hófstillt þannig að val á grunnskólanámi hverju sinni verði út frá því hvað henti barninu hverju sinni en óháð efnahag foreldra að sem allra mestu leyti.

Flutningsmenn vilja benda á að bæði í innlendri löggjöf og alþjóðasamningum er kveðið á um rétt barna til náms og um frelsi foreldra til að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum. Má í því samhengi m.a. vísa til 2. mgr. 3. gr. grunnskólalaga sem kveður á um skyldu foreldra að gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri sem og ábyrgð foreldra á námi barna sinna. Skylda þessi í grunnskólalögum er samofin foreldraskyldum og forsjá barns eins og þær skyldur eru settar fram í barnalögum. Í 28. gr. barnalaga er kveðið á um inntak forsjár en í 2. mgr. ákvæðisins segir að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að foreldrum beri að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Einnig beri foreldrum að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Þetta er mikilvægt atriði. Þá ber í þessu samhengi einnig að vekja athygli á 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist.

Af ákvæðum alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og varða réttindi barna og menntun má m.a. nefna 2. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í þessu samhengi er rétt að ítreka sérstaklega ákvæði 3. mgr. 13. gr. síðastnefnda samningsins þar sem segir:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.“

Af framangreindu má því ráða að íslenska ríkinu beri skylda til að víkja til hliðar þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir frelsi foreldra er viðkemur vali þeirra á menntun og fræðslu sem þeim finnst við hæfi með þarfir barnsins að leiðarljósi óháð rekstrarformi skóla, efnahag eða öðrum atvikum. Núverandi lagaumhverfi er ekki til þess fallið að stuðla að slíku frjálsu vali óháð efnahag og öðrum atvikum á meðan mikill greinarmunur er gerður á framlagi eftir rekstrarformi grunnskóla, þ.e. eftir því hvort um er að ræða sjálfstætt rekinn grunnskóla eða opinberan.

Þetta fer auðvitað eftir sveitarfélögum hverju sinni og ég vil líka geta þess að heima í Hafnarfirði hefur verið tekin — hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson getur komið og leiðrétt mig ef svo er ekki — svipuð stefna og í Garðabæ á sínum tíma; að láta í raun fé fylgja barni þegar kemur að samningum við einkarekna skóla, líklega með það í huga að það er líka á ábyrgð foreldra að tryggja sem best menntunarúrræði fyrir börnin sín. Þá verða þeir um leið að hafa frelsi til að velja þau úrræði.

Við mælumst til þess að sú hlutfallstala sem nú er mælt fyrir um í 2. málslið 1. mgr. 43. gr. b grunnskólalaga verði færð úr 75% í 90%. Þá má spyrja: Af hverju ekki 100%? Það er út af því að bæði sveitarfélögin og sjálfstætt starfandi skólar hafa talið mikilvægt að sveitarfélögin og þessir aðilar hafi svigrúm til að semja sín á milli. Það má hins vegar alveg færa rök fyrir því að þetta eigi bara að vera 100% og á móti verði engin skólagjöld. Við teljum rétt að viðhalda þeirri reglu að fjárframlög á nemanda lækki séu nemendur viðkomandi skóla fleiri en 200, sbr. lokamálslið 1. mgr. 43. gr. b, og leggja til að lágmarksframlag á nemanda umfram 200 nemendur í skóla hækki úr 70% í 85% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar grunnskóla í landinu sem reknir eru af sveitarfélögum. Það er mikilvægt atriði að við vitum nákvæmlega hvert viðmiðið er. Þar er náttúrlega líka höfð hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaga til að ráða málefnum sínum sjálf sem við verðum að virða, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sem og fjárstjórnarvaldi sveitarfélaga.

Við erum að reyna að vega sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga á móti rétti foreldra, skyldu þeirra og ábyrgð til þess að velja leiðina. Því erum við að reyna að feta þessa leið, til að ná þessum sjónarmiðum saman. Við höfum séð ágætisframkvæmd á þessum lögum víða um samfélagið, en misjafn háttur er á. Ég leyni því ekki að framan af á síðasta kjörtímabili voru ekki allir flokkar í þáverandi meiri hluta í borginni sammála því að gæta að sjálfstætt starfandi og reknum skólum. En nú er meiri hlutinn í borginni breyttur og orðið hefur enn frekari breyting á, m.a. með tilkomu Framsóknar í meiri hluta í Reykjavík.

Hafa verður í huga að um er að ræða lögbundin framlög sveitarfélaga með börnum sem lögheimili hafa í viðkomandi sveitarfélagi og þeim ber skylda til að bjóða upp á námsúrræði fyrir, þ.e. að sveitarfélögum ber skylda til þess að bjóða upp á þessi námsúrræði. Þar af leiðandi er um að ræða börn sem sveitarfélögum ber að tryggja skólavist og standa straum af kostnaði við hana.

Frumvarpi þessu er ætlað að styrkja fjölbreytni í skólakerfinu, þar á meðal starfsemi sjálfstætt starfandi skóla, með því að tryggja að sanngjörn framlög fylgi börnum óháð vali foreldra á skóla og óháð efnahag. Ég vonast til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál sem allra fyrst fyrir þannig að við getum afgreitt það fyrir vorið. Ég veit að ég er bjartsýn en málið er ansi gott.