Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

umferðarlög.

162. mál
[17:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir sína framsögu og að taka þetta mál upp, þ.e. umferðaröryggi og umhverfismál tengd umferð. Ég get tekið undir markmið hv. þingmanns, það er mjög mikilvægt að umferð innan þéttbýlis sé bara róleg og góð en gangi greitt fyrir sig, að það sé hvati fyrir íbúana að keyra á sem öruggastan og umhverfisvænastan hátt. En hvort lagasetning þar sem Alþingi Íslendinga segir sveitarfélögunum fyrir verkum, enn ein slík lagasetning, sé rétta leiðin — þar er ég ekki sammála hv. þingmanni. Svona breytingar eru mjög kostnaðarsamar og þarna fer þetta strax í deilurnar um hvort eigi að lækka eða hækka hámarkshraðann. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki miklu nær að uppfæra eða setja orkuna í það eða taka umræðuna um það hvernig hægt sé að draga úr umferðarhraða og hvetja til virkra samgöngumáta. Með skipulagi og umhverfi er hægt að draga úr umferðarhraða og í kjölfarið hafa hámarkshraðann 30. Ég held nú að flest stærri sveitarfélög landsins og bara flest sveitarfélög landsins séu almennt að gera 30 að hámarkshraða innan bæjar. Þannig að ég hugsa að það liggi miklu meira á því, og ég spyr hvort hv. þingmaður taki undir það, að fá almennilega umræðu um þetta og fræða um það hvernig hægt er að beita skipulagsmálum og uppbyggingu samgönguinnviða svo þessi markmið náist.