154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég var að útskýra það í fyrra andsvari hvað ég átti við; „þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi“. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður áttar sig á í rauninni hvað það getur þýtt. Það er allsherjarhlerun á netumferð, hvert fólk fer og hvað það skoðar og heimsækir. Það er hlerun, það er stórvirk hlerun, allsherjarhlerun á því hvernig fólk notar internetið. Ef það uppfyllir ekki kröfur um forvirkar rannsóknarheimildir þá veit ég ekki hvað. Við áttum okkur algjörlega á því hvernig ástandið er og þess vegna m.a. erum við að vekja athygli á þessu og þeim vanda sem hér kemur fram því að með ákveðnum hætti er verið að búa til hættu með svona nálgun á vandann. Við höfum talað fyrir skaðaminnkun og afglæpavæðingu til þess einmitt að tækla skipulagða glæpastarfsemi í staðinn fyrir að auka stríðið sem hefur verið í gangi á undanförnum áratugum sem hefur búið til núverandi ástand, núverandi skipulagða glæpastarfsemi. Þar er vandamálið, stríðið þar er tapað. Við þurfum aðrar aðgerðir. Við þurfum aðrar aðferðir til þess að tækla þann vanda sem t.d. er grunnurinn í skipulagðri glæpastarfsemi, fíkniefnin. Þar er fjármögnunin á skipulagðri glæpastarfsemi og þar þurfum við virkilega að einbeita okkur og núgildandi lög og þessi löggjöf hérna lagar ekki neitt, gerir illt verra ef eitthvað er.