131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þessi tíðindi og fagna þeim og þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir ötula baráttu fyrir réttindum þessa hóps, sem eru foreldrar langveikra barna. Nú er löng bið eftir úrbótum senn á enda og vissulega þarf að taka víðar á. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að huga þarf að styrkjum til utanferða, huga þarf að foreldrum barna í erfiðum vímuefnavanda en hér er verulega verið að taka á. Staðan hefur verið afleit hjá þessum börnum og foreldrum þeirra. Við höfum verið mun aftar en nágrannaþjóðirnar hvað varðar réttindi þannig að ég fagna svo sannarlega þessum tíðindum og óska öllum til hamingju og sérstaklega náttúrlega foreldrum fatlaðra barna sem sjá fram á betri tíð og ríkari stuðning frá hinu opinbera.