131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

513. mál
[12:21]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi Jón Bjarnason hefur í fyrirspurn sinni vakið athygli á vandamáli sem hefur um nokkurt skeið verið til skoðunar í ráðuneyti mínu. Nánar tiltekið er um það að ræða að samkvæmt gildandi lögum eiga nemendur sem búa á heimavist eða í leiguhúsnæði innan síns sveitarfélags ekki rétt á húsaleigubótum nema þeir skrái lögheimili sitt í hinu leigða húsnæði.

Ástæða þessa er sú að til að eiga rétt á húsaleigubótum verða leigjendur að eiga lögheimili í hinu leigða húsnæði. Námsmenn eru þó undanþegnir þessu skilyrði um lögheimili en sveitarfélag námsmanns er greiðandi húsaleigubóta óháð því hvar aðsetur hans er á meðan á námi stendur.

Þröngar reglur gilda hins vegar um aðsetursskráningu námsmanna. Þeir verða að sækja nám í annað sveitarfélag til að eiga kost á að skrá aðsetur sitt en ella þarf námsmaðurinn að breyta lögheimilisskráningu. Við flutning lögheimilis getur námsmaður á hinn bóginn misst ýmsan rétt sem hann ella ætti, svo sem dreifbýlisstyrk. Dveljist námsmaður utan þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili er námið hefst og hann á þar skráð aðsetur getur hann samkvæmt framansögðu átt rétt til húsaleigubóta. Umrætt ákvæði var sett með hliðsjón af efni 3. mgr. 4. gr. laga um lögheimili en það eru þær reglur sem Hagstofa Íslands fer eftir við skráningu aðseturs og lögheimilis í þjóðskrá. Gildandi reglur geta komið illa út gagnvart íbúum víðfeðmra sveitarfélaga, eins og hv. þingmaður benti á, á borð við sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ og Sveitarfélagið Skagafjörð.

Samráðsnefnd um húsaleigubætur er samstarfsvettvangur félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga á þessu sviði. Á fundum samráðsnefndarinnar hefur að undanförnu verið fjallað um þetta vandamál og m.a. hvort þörf sé á að gera breytingar á lögum um húsaleigubætur á þann veg að rýmka ákvæðið um lögheimilis- eða aðsetursskráningu gagnvart námsmönnum innan sama sveitarfélags. Hugmyndin er, hæstv. forseti, að bætt verði við lögin ákvæði er taki til námsmanna er þurfa að sækja nám um langan veg eða ef samgöngur eru sérstaklega erfiðar en eru þó innan sama sveitarfélags.

Á síðasta fundi samráðsnefndarinnar voru nefndarmenn sammála um að slík breyting yrði til mikilla bóta við samræmingu á framkvæmd húsaleigubóta. Breytingin væri einnig sanngirnisatriði en hins vegar er ljóst að hún mundi skapa einhvern kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Einnig má geta þess að ókosturinn við slíka rýmkun er að það gerir eftirlit erfiðara þar sem leigjandinn væri þá í einhverjum tilvikum hvorki með skráð lögheimili né aðsetur í hinu leigða húsnæði.

Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt hafa útgjöld sveitarfélaganna vegna húsaleigubótakerfisins aukist mjög mikið á síðustu árum. Breytingar er auka útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubótakerfisins verða ekki gerðar á lögum um húsaleigubætur nema að fenginni umsögn stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samráðsnefndin fyrrnefnd ákvað því að senda forráðamönnum helstu heimavista og nemendagarða fyrisrpurn þar sem óskað var eftir upplýsingum er gætu upplýst kostnað við hugsanlega lagabreytingu. Verið er að vinna úr þeim svörum og á þessu stigi liggur engin ákvörðun fyrir um hugsanlegar lagabreytingar til að rýmka rétt námsmanna til húsaleigubóta frá því sem nú er. Hins vegar liggur fyrir jákvæður vilji samráðsnefndar um húsaleigubætur en málið er sem sé í nánari skoðun hjá nefndinni þar sem m.a. verður reynt að kostnaðarmeta áhrif slíkra breytinga ef í þær yrði ráðist. Ég tel því rétt að bíða endanlegrar afgreiðslu samráðsnefndar á málinu áður en ákvörðun verður tekin um lagabreytingar.