131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:38]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni með það að mér fannst hæstv. ráðherra ekki tala nógu skýrt. Hann sagði að verið væri að fara yfir málin og hann vonaði að það tækist að finna lausn. Þetta er ekki það sama og að segja að skurðstofan verði opin í þessar sex vikur í sumar. Þetta er heldur ekki það sama og að segja að bakvaktirnar verði teknar upp að nýju. Þarna á er stór munur.

Hæstv. ráðherra hlýtur að geta talað skýrar en hann gerði áðan. Hann sagði réttilega að það hlyti að vera þannig að þessi stofnun fengi ekki nægilega vel skammtað fé af fjárlögum á hverju ári. Stjórnvöld hljóta að bæta úr því við afgreiðslu næstu fjárlaga en nú, þegar málið snýst um svo lágar upphæðir, kannski 10, í mesta lagi 15 millj. kr., hlýtur að vera hægt að finna peninga fyrir því. Vestmannaeyingar eiga það fyllilega skilið að þeir peningar verði fundnir þannig að þessum málum verði kippt í liðinn.

Það var mjög athyglisvert að heyra hv. þm. Drífu Hjartardóttur segja að að sjálfsögðu yrði skurðstofunni ekki lokað. Hún er 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurk. og við vitum að Framsóknarflokkurinn er yfirleitt vanur að gera það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir honum að gera. Þarna verður því vonandi breyting á.

Annars sakna ég þess, fyrst hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson er í salnum, ráðherra Suðurlands, að hann skuli ekki taka þátt í umræðunni. Það hefði verið athyglisvert að heyra sjónarmið hans í þessu máli. (Landbrh.: … skýr í þessu máli.) Þá býð ég hæstv. landbúnaðarráðherra að koma hingað í ræðustól og greina frá þeim því að Vestmannaeyingar eru að fylgjast með.