132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

176. mál
[12:27]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka mjög góðar undirtektir hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls varðandi þessa tillögu um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Ég heyri á máli hv. þingmanna að þeim er eins og mér þannig innan brjósts að þetta sé eitt brýnasta mál fyrir íbúana í þessu byggðarlagi.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að félag Vinstri grænna í Mosfellsbæ ályktaði einmitt um þetta núna um áramótin og í blaði sem félagið gaf út um jólaleytið var ítarleg umfjöllun um þörf á framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Við heyrðum hér hjá hv. þingmönnum að íbúum fjölgar enn örar en hér er getið. Ég tók þessar tölur, að það væru um 7.000 manns, upp úr hagtölum síðasta haust og upp úr áætlunum bæjarfélagsins um fjölgun íbúa. Ég er alveg sammála því sem hér hefur komið fram að þar sé mjög varlega áætlað og líklega verður fjölgunin enn meiri og því enn brýnna að taka á framhaldsskólamálum þessa samfélags.

Að sjálfsögðu gerist þetta í áföngum. Þeir nemendur sem eru í öðrum skólum fara náttúrlega með eðlilegum hætti í gegnum sitt nám og ljúka því eins og þeir óska og áfram er það frjálst val hjá nemendum að sækja aðra skóla á höfuðborgarsvæðinu eftir því sem þeir óska. Til að forðast misskilning er því aldrei miðstýrt með neinum hætti. En framhaldsskóli er ein af grunnstoðum hvers fjölskylduvæns samfélags. Í kringum hann byggist félagsstarf, tómstundastarf og svo margháttað starf sem er mikilvægt til að styrkja fjölskylduböndin og innviði samfélagsins. Herra forseti. Það er svo sannarlega kominn tími á að á þessum málum verði tekið í Mosfellsbæ. Ég treysti Vinstri grænum í Mosfellsbæ til að bera þetta mál öflugt fram eins og þeir hafa nú þegar gert.

Að lokinni umræðu hér óska ég eftir að tillögunni verði vísað til hv. menntamálanefndar og málið fái þar mjög skjóta og öfluga afgreiðslu. Í ljósi umræðna hér á þingi og orða þeirra ræðumanna, hv. þingmanna, sem hér hafa tekið til máls ætti að vera einboðið að þetta mál fengi skjóta og góða afgreiðslu, herra forseti.