132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar menn ræða um skattheimtu til sveitarfélaganna hefur hér í sölum Alþingis ævinlega svifið furðuleg forræðishyggja yfir vötnum. Ég hef þá skoðun að sveitarstjórnarmenn beri pólitíska ábyrgð ekkert síður en alþingismenn. Þess vegna þurfa tekjustofnar sveitarfélaganna að hafa þannig svigrúm að sveitarfélög, eða þeir sem þar hafa tekið á sig ábyrgð, geti sinnt þeim skyldum og hugðarefnum sem kjósendur á viðkomandi svæði hafa kosið þá til. Ég tel þess vegna að mörg sveitarfélög hafi lent í miklum erfiðleikum, og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, vegna þess að tekjurnar sem þau hafa haft til að sinna lögbundnum skyldum sínum hafa ekki dugað. Það er svo aftur spurning hvort hið opinbera eigi þá að hlaupa undir bagga með einhverjum hætti. Það er ekki bæði hægt að banna mönnum að bjarga sér og bregðast þeirri skyldu að koma til móts við þær þarfir sem eru fyrir hendi á svæðinu. Það er þess vegna sem ég tel að svigrúm sveitarstjórnarmanna til þess að taka ákvarðanir um álagningu gjalda þurfi að vera nægilegt til að standa undir skyldunum. Það er metið hér í Alþingi með þeim hætti að það er mjög umdeilanlegt. Ég er talsmaður þess að menn stækki sveitarfélögin. En meðan þau eru svona lítil verða menn að taka tillit til stöðunnar. Mörg sveitarfélög í þessu landi eyða núna allt upp í 90% af fjármunum sem þau hafa til ráðstöfunar eingöngu í skólamál. Þá sjá nú allir hvað er eftir til að gera alla aðra hluti sem eru á verksviði og falla undir skyldur sveitarfélaganna.

Ég mæli gegn þeirri forræðishyggju sem svífur hér oft yfir vötnunum hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna. Sveitarstjórnarmenn eiga að standa og falla með gerðum sínum. Þeir eiga að leggja fram sína stefnu um hvaða verkefni þeir vilja að verði unnin í sveitarfélögunum. Fólkið á auðvitað að kjósa nýja menn til starfa ef menn hafa ekki staðið við það sem þeir hafa sagt fyrir kosningar.

Síðan er ástæða til að velta því fyrir sér eftir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan, sem stakk upp á því að skylda sveitarfélögin til að leggja fram tvær fjárhagsáætlanir, aðra með mikilli þjónustu og háum gjöldum en hina með knappari hætti. Síðan ættu menn að kjósa um þetta í sveitarfélögunum. Mér þykir lýðræðisvakningin aldeilis hafa náð til Péturs úr því hann telur að árlega eigi menn að standa frammi fyrir einhverjum slíkum valkostum. Spurningin er hvort hann eigi ekki að snúa þessu að sjálfum sér sem ábyrgðarmaður hér á ríkisstjórn. Það gæti vel verið að fólkið í landinu hefði allt aðra skoðun á því hvað ætti að standa í fjárlögum hverju sinni heldur en hv. þingmaður hefur og þeir sem hafa verið meðreiðarsveinar hans í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það gæti t.d. vel verið að fólkið í landinu mundi í stórum meiri hluta komast að þeirri niðurstöðu að það ætti að setja verulega meiri fjármuni til að koma til móts við þarfir aldraðra í þessu landi en gert hefur verið. Ég er algjörlega viss um að þannig er það.

Það er auðvitað hægt að fagna því ef hv. þingmaður vill fara að hlusta eftir því sem fólkið í landinu vill með einhverjum slíkum hætti eins og þessum. Það er þá vel og mér finnst að það væri þá full ástæða til að rækta þessa umræðu við hv. þingmann. Kannski hefur hann verið að ræða þetta í sínum þingflokki og þar eru kannski vatnaskil á ferðinni, að þar ætli menn að fara að hlusta á grasið vaxa allt í kringum sig. Mér hefur ekki fundist að sú heyrn væri allt of næm sem þar hefur verið til staðar því það hefur alla vega legið fyrir mjög lengi að það hefur vantað fjármuni til ýmissa hluta í samfélaginu þó nógir séu þeir í annað. Ég mæli auðvitað með því að menn fylgist með því hvað fólkið vill en það hefur ekki verið gert á ríkisstjórnarbænum undanfarið.