136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

starfsemi St. Jósefsspítala.

[10:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt hjá hv. þingmanni að óvissa ríkir um framtíð St. Jósefsspítala og ég lít á það sem forgangsverkefni hjá mér að greiða úr þeim málum þannig að óvissan víki og menn viti hvert stefni.

St. Jósefsspítali er hafnfirskt sjúkrahús og þannig líta íbúarnir á málin. Af þeim sökum byrja ég á því að eiga viðræður við forsvarsmenn Hafnarfjarðarbæjar og bæjarstjórann í Hafnarfirði og leita eftir samstarfi um framtíðarlausn sjúkrahússins við hann og bæjaryfirvöld. Í öðru lagi hef ég boðað á minn fund fulltrúa þeirra hollvinasamtaka sem hv. þingmaður vísar til. Sá fundur fer fram núna síðdegis. Ég mun einnig eiga viðræður við starfsfólk á St. Jósefsspítala til að heyra sjónarmið þess.

Vandinn er sá að því miður hefur allt of títt verið ráðist í umfangsmiklar breytingar án þess að leitað sé samráðs við þá sem málin snerta með viðunandi hætti. Síðan er hitt að þessi mál þarf að sjálfsögðu að skoða í víðara samhengi út frá þjónustunni sem þessi spítali og önnur sjúkrahús á þéttbýlissvæðinu hér eiga að veita. Þannig þarf að leita til annarra stofnana einnig. Ég horfi t.d. til Landspítalans og möguleika á að samnýta þjónustu innan kerfisins almennt. Síðan er á hitt að líta að við þurfum að skoða gaumgæfilega hvernig við förum með fé úr okkar sameiginlegum sjóðum. Þegar horft er til heilbrigðisþjónustunnar eru 70% útgjaldanna launagreiðslur. Að sjálfsögðu mun ég fara í saumana og er að fara í saumana á því hvernig farið er með skattfé inni á þessari stofnun. Auðvitað þurfum við að skoða það. Ég hef sagt í þeim þrengingum sem við stöndum frammi fyrir að krafan á þjóðfélagið núna og stjórnvöld er að jafna kjörin. Það mun ég hafa að leiðarljósi þegar ég tek á þessu málum sem öðrum.