138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og hæstv. ríkisstjórnin geri atrennu að vitleysunni í nokkrum liðum. Þannig er mál með vexti að fyrr í þessu frumvarpi ákváðum við að draga úr sveigjanleika fiskveiðistjórnarkerfisins með því að rýra svokallaðan geymslurétt milli ára úr 33% í 15%. Svo var eins og ríkisstjórnin eða ráðherrann hefði hugsað sig um þegar frumvarpið var lengra komið og sagt: Ég get örugglega gert enn þá meiri vitleysu en þetta, og ákvað þess vegna að hafa sérstakt ákvæði sem gildir bara þó um þetta fiskveiðiár þar sem geymslurétturinn er minnkaður úr 33% í 15 og síðan í 10%. Þetta er auðvitað til þess fallið að skemma markaðsstarf, draga úr hagkvæmni, stuðla að sóun, minnka sveigjanleika, þetta er í raun og veru ríkisstjórnarsamþykktin í sjávarútvegsmálum í hnotskurn. Þetta er óskynsamlegt ákvæði. Ég segi því nei.