138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru um 8.000 störf í fiskveiðum og sjávarútvegi eða fiskvinnslu í landinu í dag, og um 16.000 afleidd störf. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé reiðubúinn, fyrst honum er mjög annt um að teikna upp þessa jákvæðu mynd, eins og hæstv. ráðherra orðar það, að það sé hans mat að þetta sé svo snjallt og gott, hvort hann sé tilbúinn í að láta gera rannsókn eða samanburð á því hversu miklu strandveiðarnar versus hinar hefðbundnu veiðar og þær fiskveiðar sem við þekkjum í aflamarkskerfinu, skila til sveitarfélaga í skatttekjur og hverju þær skila til ríkisins í skatttekjum og tekjum. Að bera saman þessar aðferðir og þessar greinar og sjá úr hvoru kerfinu innheimtist í rauninni meira fyrir þessa aðila. Það væri mjög forvitnilegt að sjá það, frú forseti, því að ég hef grun um að mat hæstv. ráðherra muni þá hugsanlega breytast.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að fiskurinn í sjónum er þjóðareign og ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra þegar verið er að tala um nýtingarrétt á þessari eign eða þessari auðlind þjóðarinnar. En það að úthluta þessum afla, þessum verðmætum nánast eftir geðþótta eins og mér sýnist hæstv. ráðherra ætla að gera, er alveg eins og ef menn tækju góða laxveiðiá í landinu og auglýstu að nú gætu allir veitt lax í hálfan mánuð, allir gætu veitt, og þetta væri í september eða eitthvað svoleiðis. (AtlG: Það væri gleðiefni.) Það væri gleðiefni, segir hv. þm. Atli Gíslason. Ég deili því svo sem með honum en hugsið ykkur hvað mundi gerast þá. Ég vara eindregið við því, frú forseti og hæstv. ráðherra, að það verði haldið áfram á þessari braut því að það er alveg augljóst að með þessum frumvörpum sínum er hæstv. ráðherra að reyna að brjóta niður gott kerfi (Forseti hringir.) sem hefur þróast í gegnum árin, gott kerfi sem þarf vissulega að laga en það þarf ekki að rústa því líkt og hæstv. ráðherra ætlar sér að gera.