138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nálgaðist þessa umræðu þannig í upphafi að ég taldi mjög áhugavert að ræða þetta fyrirkomulag vegna þess að hér gæti verið býsna mikið í húfi. Hér er verið að taka ákvörðun um að deila út 6.000 tonnum af þorski að mestu leyti sem er 4% af úthlutuðum kvóta eða þar um bil, sem er svo sem ekki neitt smáræði, 6.000 tonn, og nú segir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þetta sé bara eitthvert pólitískt markmið. Þetta sé til þess gert að almenningur geti, eins og hann orðaði það, nálgast auðlindina og hér eigi ekki að fara að hefja neinar stórfelldar atvinnuveiðar.

Nú er þetta ekki lengur áhugavert umræðuefni, nú finnst mér vera orðið tilefni til að hafa nokkrar áhyggjur. Ef hæstv. ráðherra lítur ekki svo á að hér sé um að ræða alvöruatvinnurekstur hjá þessu fólki, 500–600 manns sem væntanlega fara til veiðanna á næsta fiskveiðiári og kannski fleiri, að hugsunin sé ekki sú að reyna að hámarka verðgildið, draga úr kostnaði og reyna að gera sem mest úr þessari auðlind, finnst mér þetta vera orðið dálítið mikið áhyggjuefni. Ég hef einhvern veginn ímyndað mér að það hlyti líka að vera eitthvað sem menn tækju með í reikninginn þegar þessi mál væru rædd að við reyndum að gera sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði úr auðlindinni, því að auðvitað byggist þetta allt á því. Ef það er bara þannig að það séu einhver óljós samfélagsleg markmið að gefa almenningi kost á að nálgast auðlindina, eiga menn auðvitað að segja það skýrt og punktur: Þannig er það og við erum ekki að hugsa um neitt annað í sambandi við þennan þátt í okkar sjávarútvegi. En þá ætla ég að segja: Við skulum hins vegar fara gætilega ef það á að vera eina markmiðið í þessu sambandi.

Ég spurði hins vegar hæstv. ráðherra ákveðinna spurninga, m.a. varðandi svæðaskiptinguna. Ef hæstv. ráðherra kemur aftur upp í andsvar vil ég ítreka þessa spurningu, því að hún skiptir miklu máli. Nú er hæstv. ráðherra að hverfa frá því að Alþingi ákveði svæðaskiptinguna, hún mistókst reyndar hrapallega eins og við bentum á í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og kom fram í umræðunum á síðastliðnu sumri. Nú ætlar hæstv. ráðherra að fá almenna heimild, hann hefur hvergi ljóstrað því upp hvernig (Forseti hringir.) hann ætlar að nýta þá heimild, hvað eigi að liggja til grundvallar, hvernig skiptingin eigi að vera og hvernig hann ætli að ákveða aflamagnið inn á hvert svæði. Ég verð að krefja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) svara um þessi mál.