138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Fyrst vegna þeirra orða sem féllu áðan hjá hv. þm. Atla Gíslasyni um sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna, það er alveg sama hvernig því verður snúið, það er bæði ankannalegt og ekki í takti við sjálfbæra nýtingu auðlinda að Alþingi skuli veita sjávarútvegsráðherra heimild til að fara fram yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar — 80%. Þó að honum sé uppálagt að hafa síðan eitthvert samráð við stofnunina segir það sig sjálft að fyrir liggur mat Hafrannsóknastofnunar á því hversu mikið má veiða af þessari tegund þannig að með sjálfbærum hætti sé og það er fordæmalaust að Alþingi setji lög um að sjávarútvegsráðherra hafi heimild til að fara svona langt úr þeirri ráðgjöf sem liggur fyrir. Undan þessu verður ekki vikist.

Það sem ég vildi, herra forseti, gera að umræðuefni í þessari síðustu ræðu minni við 1. umr. um umfjöllun um þetta lagafrumvarp er að það sem ég hef áhyggjur af er að smám saman sé verið að breyta grunngerð íslensks sjávarútvegs, bæði með því frumvarpi sem við erum að ræða hér og eins hinu margfæra skötuselsfrumvarpi. Meðal annars er verið að grafa undan, eins og ég hef áður nefnt, þeirri grundvallarreglu að við búum við hlutdeildarkerfi. Ég hef lýst afleiðingum af því hvernig það getur farið ef við kippum úr sambandi hagsmunum þeirra sem eru að veiða við það að fara skynsamlega með þegar kemur að því að ákveða hversu mikið á að veiða, heildaraflann, að menn geti treyst því að þegar skorið er niður fái þeir að njóta þegar aflinn er aftur aukinn. Um leið og menn skera á þetta, eins og er verið að gera í þessum frumvörpum báðum, munum við fá verra fiskveiðistjórnarkerfi þegar upp verður staðið.

Ég er alveg sannfærður um að það er ekki einlæg ætlun hæstv. sjávarútvegsráðherra að setja íslenskan sjávarútveg í uppnám en ég held því miður að þegar horft er, eins og mér sýnist hæstv. sjávarútvegsráðherra og meiri hluti Alþingis gera, á þetta svona í afmörkuðum málum, menn horfa bara á tegundina skötusel eða strandveiðarnar, komumst við að þeirri niðurstöðu að í hvert sinn sé allt í lagi þó að menn víki frá grundvallarsjónarmiðum, en þegar menn hafa vikið nógu oft frá grundvallarsjónarmiðunum eru þeir búnir að eyðileggja það kerfi sem við höfum til þess að reyna að ná sem mestri hagkvæmni út úr veiðum á Íslandsmiðum. Það er hlutverk okkar alþingismanna að búa til kerfi, stjórnkerfi, sem hjálpar okkur að nýta auðlindina á ábyrgan og hagkvæman hátt eins og sérstaklega er kveðið á um í lögum um stjórn fiskveiða.

Ég gerði sögu lúddítanna í Bretlandi að umræðuefni í ræðu minni áðan. Þeir börðust gegn vélvæðingunni af því að vélarnar tóku störfin. Það er ekki þannig barátta sem á sér stað hér, það er ekki verið að berjast gegn vélvæðingunni, en það er verið að berjast gegn því kerfi sem hefur búið til hagkvæmni sem hefur leitt til þess að við höfum getað fækkað störfunum í sjávarútvegi, það eru færri sem sækja sjóinn, það eru færri sem vinna í fiskvinnslunni, það er meiri arður. Ég verð að leyfa mér að segja að þessi nútíma-lúddíski hugsunarháttur sem felur í sér að í stað þess að brjóta og skemma vélar á að brjóta og skemma kerfið. Það á að brjóta og skemma það kerfi sem hefur leitt til þess að við höfum búið til meiri hagkvæmni, okkur hefur gengið betur að reka sjávarútveg okkar en öðrum þjóðum sinn sjávarútveg. Við eigum líka þjóða mest undir því að gera það. Þess vegna er það skemmdarverk og óábyrgt að fara þannig fram í stjórnkerfi í fiskveiði eins og gert hefur verið hér á undanförnum mánuðum í þinginu, að koma aftur og aftur með frumvörp sem grafa undan meginhugsun þessa stjórnkerfis. Ég er ekki einn af þeim sem telja það fullkomið kerfi, það er margt sem þarf að breyta og það er margt sem þarf að bæta, en þau frumvörp sem við höfum verið að ræða hér gera það ekki.

Á sama tíma hangir yfir íslenskum sjávarútvegi sú ógn að það eigi að þjóðnýta allar veiðiheimildirnar, innkalla þær til ríkisins og leigja þær síðan aftur út eða með einhverjum öðrum hætti koma þeim aftur út þannig að ríkið slái eign sinni á veiðiheimildirnar. Það er ekkert annað en þjóðnýting og það hangir yfir. Þetta, herra forseti, er ekkert annað en skemmdarverk í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er nútíma-lúddismi.