141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er engin tilviljun að staðan í þinginu er eins og raun ber vitni. Það er engin tilviljun fólgin í því. Það er engin tilviljun að staðan í Icesave-málinu var eins og hún var og það er engin tilviljun að staðan í stjórnarskrármálinu er eins og hún er. Þau eru heldur engin tilviljun ummæli hæstv. atvinnuvegaráðherra þegar hann sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að hann hefði umfram aðra menn tekið að sér að bjarga Íslandi. Eða þegar hann sagðist mundu leysa vanda sjávarútvegsins á þremur vikum eftir að hann kæmist í stól ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu. Hann talaði um það hér í þinginu í gær að það hefði verið brandari af sinni hálfu og nú eru það tilviljanir.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki svo. Það var engin tilviljun að lagt var upp með lengstu umræðu í sögu þingsins. Það var engin tilviljun að þeirri umræðu var sjónvarpað og það var engin tilviljun að þjóðin sat hér daginn fyrir gamlársdag og fylgdist með sjónvarpi, beinni útsendingu frá Alþingi, um atkvæðagreiðslu um Icesave-málið. Það var engin tilviljun. Það var ósk stjórnarandstöðunnar. Og það var engin tilviljun að forsetinn skyldi grípa til sinna ráða. Það var engin tilviljun og fyrsta skýring hans, þegar hann réttlætti þá ákvörðun sína, var einmitt sú að hér hefði verið felld með naumum meiri hluta sú tillaga stjórnarandstöðunnar, okkar sjálfstæðismanna, að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það var engin tilviljun að stjórnarflokkarnir höfnuðu því að treysta þjóðinni fyrir þessu máli. Þetta voru engar tilviljanir.

Virðulegi forseti. Það sama er upp á teningnum núna, það er auðvitað engin tilviljun að við erum að fara hér inn í umræðu um stjórnarskrármálið eins vanbúið og það er. Það er alveg hræðilegt að það skuli vera staðan hjá hinu háa Alþingi. Maður hefði vonað, með þá lexíu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa fengið síðustu dagana, að þeir létu sér það að kenningu verða í þessu mikilvæga máli og tækju nú til vandaðra vinnubragða þegar um svo mikilvægt mál er að ræða. (Forseti hringir.) Ég vona að fólk taki þetta til sín en fari ekki með það mál vanbúið og efni hér til annarrar langrar umræðu sem verður engin tilviljun og ber vonandi árangur.