143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður hefur ekki nákvæmlega eftir það sem menn segja við aðra sem standa og hitta frambjóðendur eins og gengur og gerist. Ég stóð í stórmörkuðum í mínu kjördæmi og kjósendur komu og ræddu við mig eins og þeir gerðu við frambjóðendur Framsóknarflokksins hér á höfuðborgarsvæðinu. Ungt fólk sem hefur áhyggjur af framtíð Íslands, og vill að við tengjumst þessu sambandi, tökum upp nýjan gjaldmiðil og annað slíkt, eins og ungt fólk vill margt hvert, skiptist á skoðunum við frambjóðendur. Þar á meðal kom fram að aðildarviðræður ætti að leiða til lykta og leggja málið í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það er einmitt það sem við erum að tala um núna.

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefur aldrei á Íslandi verið eins mikið tækifæri til að mynda breiða sátt meðal alþingismanna og fælist í því að (Forseti hringir.) samþykkja tillögu um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa lofað, (Forseti hringir.) hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram.