143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gagnrýnt hérna og sagt að þingmenn stjórnarandstöðunnar vilji ekki fá málið í nefnd. Þá vil ég bara árétta að miðað við hvernig þetta hefur verið í dágóðan tíma þá veit maður ekki hvernig í ósköpunum maður á að geta treyst því að málið verði rætt af einhverri alvöru í nefnd. Ferlið er þannig að fyrst fær málið umræðu í þinginu og síðan fer það til nefndar. Það hefur ekki fengið neina efnislega umræðu af hálfu stjórnarinnar svo orð sé á hafandi.

Við sitjum hér og við ræðum málið, við reynum að ræða það efnislega og þá sjaldan sem hv. þingmaður stjórnarmeirihlutans stígur í pontu og segir eitthvað efnislega um málið þá vantar alla hæstv. ráðherra eða að minnsta kosti yfirþyrmandi meiri hluta stjórnarmanna. Það er ekki umræðan sem ætlað er í þingsköpum að hafa fyrir nefndarstarf. Það er því ekki rétt að gagnrýna einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að vilja ekki fá málið í nefnd, eins og sagt hefur verið. Það er ekki í neinu samræmi við það hvaða umræða á sér stað hér eða öllu heldur á sér ekki stað hér og sérstaklega tekur maður eftir fjarveru hæstv. forsætisráðherra sem þó virðist taka allar ákvarðanir þegar allt kemur til alls.