143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Helga Hjörvars vegna þess að hér hefur aldeilis verið gefinn fyrirvari. Við fengum ekki mikinn fyrirvara á þessum kvöldfundi en ráðherrarnir hafa heldur betur fengið fyrirvara á því hvenær hefur verið óskað eftir því að þeir sitji hér og eigi orðastað við okkur þingmenn í salnum. Ég vil fá að heyra frá hæstv. forseta hvort það sé ekki alveg öruggt að á meðan ræða þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verður flutt og að á meðan hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, flytur sína ræðu verði ráðherrar í salnum sem geti hlýtt á mál hans og brugðist við því sem hann spyr og segir.

Nú er búið að koma með alls konar skilaboð til okkar inn í þessa umræðu frá forustumönnum í ríkisstjórn en það er samt ekki hönd á neitt festandi. Þeir þurfa að fara að koma hingað og eiga við okkur (Forseti hringir.) alvöruorðastað um hvað þeir meini og hvernig þeir ætli að vinna með þetta mál í framhaldinu.