144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

lyklafrumvarp.

[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ef það er rétt sem forsætisráðherra segir, að væntanlegt sé frumvarp frá innanríkisráðuneytinu, ólíkt því sem sagt var hér á föstudaginn, um einhvers konar lyklafrumvarp. En þetta orðalag var nú býsna langt, hæstv. ráðherra, og ég man að orðalagið sem lofað var var miklu skýrara og styttra. Þýðir þetta það, hæstv. forsætisráðherra, að ekki verði hægt að gera fólk gjaldþrota á grundvelli krafna sem eru eftirstæðar eftir að búið er að selja ofan af fólki? Með öðrum orðum, er hægt að halda áfram að elta fólk með kröfur eftir nauðungaruppboð og gera það gjaldþrota með þeim kröfum? Það var það sem báðir flokkarnir lofuðu fólki að yrði ekki hægt. Ég bið hæstv. forsætisráðherra um að staðfesta það að það sé ætlun hans að standa við það og þá að lýsa því yfir að það sé væntanlegt hér inn fyrir 26. mars því að nauðungaruppboðin eru hafin.