144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

endurhæfingarþjónusta við aldraða.

558. mál
[16:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er töluverð þörf fyrir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Um síðustu áramót voru 295 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á landinu öllu. Meðalbiðtími ræðst að sjálfsögðu töluvert af hjúkrunarþyngdinni á hverjum stað. Hún er þung á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir þá að það er styttri biðtími eftir plássi, en á landinu öllu er meðalbiðtími þeirra sem koma inn á heimilið um 82 dagar. Utan höfuðborgarsvæðisins er lengri biðtími, sem bendir þó til þess að hjúkrunarþyngdin þar sé ekki eins mikil og hér.

Það er tvímælalaust full þörf fyrir þennan þátt, endurhæfinguna, í þjónustu við aldraða, ekki síst til að styrkja sjálfstæða búsetu.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að stefna mín væri sú að auka frekar þá endurhæfingu en draga úr henni. Engin önnur stefnumörkun liggur fyrir en sú að þetta er bara hluti af því þjónustuframboði sem öldruðum býðst, hvort heldur það er innan hjúkrunarheimila eða heima hjá fólki, þá í tengslum við samninginn sem er á milli Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um heimaþjónustu og félagslega heimaþjónustu, samþættingu þess.

Þegar spurt er hvernig nýta eigi þá fjármuni sem dugað hefðu fyrir þessi 20 rými er staðan einfaldlega sú að starfsmenn ráðuneytisins eru að leita leiða til að koma þeim fjármunum í lóg í þágu aldraðra því að það er í sjálfu sér ekki mjög mikið framboð (Forseti hringir.) af rými fyrir þessa þjónustu. Það eina sem ég get lofað er að þessir fjármunir verða nýttir í þágu aldraðra, það er alveg ljóst mál.