144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

staðsetning þjónustu við flugvél Isavia.

505. mál
[16:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi er hér átt við flugvél Isavia sem var leigð til Mýflugs og hefur gegnt sjúkraflugi. Reyndar er það strangt til tekið þannig að samkvæmt samningnum var hún staðsett í Reykjavík allan tímann þótt hún hafi í raunveruleikanum verið mest á Akureyri. Ég vil að það komi fram að samningnum var með þeim hætti háttað.

Mér var hvorki kunnugt né ráðuneytinu tilkynnt um ákvörðun Isavia, en ráðuneytinu var kunnugt um hana og þau sjónarmið sem þar lágu að baki. Það er rétt að rifja upp að þessi umrædda flugvél fyrirtækisins var ætluð til prófunar flugs á flugleiðsögutækjum landsins. Eru jafnframt í gildi samningar um sams konar verkefni á Grænlandi og í Færeyjum. Þar sem vélin var ekki fullnýtt í framangreind verkefni var hún leigð til Mýflugs að undangengnu útboði þar sem gert var ráð fyrir fimm ára leigu með framlengingu um eitt ár í tvö skipti. Samningurinn hefur runnið sitt skeið núna eftir að heimildir til framlengingar voru fullnýttar.

Ég vil að það komi fram, virðulegi forseti, að mér er eins og hv. fyrirspyrjanda mjög umhugað um að sjúkraflug sé tryggt um allt land. Það á bæði við um Norðurlandið og einnig að menn geti sinnt því með þeim hætti að það sé greitt aðgengi að sjúkrastofnunum í Reykjavík.

Við flugprófanir sem varða þetta verkefni sem Isavia er að fást við er notast við mjög sérhæfðan og dýran tækjabúnað. Eftirspurn er nú eftir slíkri þjónustu erlendis. Boðist hafa hagstæðir samningar vegna slíkra verkefna sem nýtast við að ná til baka kostnaði af tækjabúnaði og rekstri vélarinnar. Ekki er því lengur þörf á útleigu vélarinnar að mati Isavia og verður hún því aðallega notuð í flugþróunarverkefni. Þar að auki hefur þótt verulega óhentugt og áhættusamt að taka viðkvæman og dýran tækjabúnað úr vélinni í hvert sinn sem flugprófunarverkefni lauk svo nýta mætti vélina til sjúkraflugs. Það var því mat félagsins miðað við reynslu af samningnum við Mýflug að Isavia hefði verulegan kostnað af útleigunni. Félagið annast nú rekstur vélarinnar sjálft en samdi við Landhelgisgæslu Íslands um stjórnun og framkvæmd viðhalds eins og gert var lengst af á árunum 1975–2007.

Spurt er hvort stjórnvöld hafi metið áhrif þessarar ákvörðunar Isavia á öryggi sjúkraflugs og getu flugrekenda til að sinna því með fullnægjandi hætti í ljósi yfirlýstrar stefnu um miðstöð sjúkraflugs á Akureyri. Ákvörðunin hefur að mati ráðuneytisins ekki áhrif á stöðu sjúkraflugs enda hefur Mýflug nú þegar tekið á leigu aðra sams konar vél sem er á staðnum og til reiðu. Ég vil enn og aftur leggja áherslu á að það er mín skoðun og áhersla að mikilvægi öryggis í sjúkraflugi sé tryggt og að það verði að vera tryggt.

Spurt er hvort stjórnvöld hyggist gera ráðstafanir vegna þeirra starfa sem tapast nyrðra standi þessi ákvörðun óbreytt. Því er til að svara að Isavia er opinbert hlutafélag sem annast rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu. Hlutverk félagsins er að tryggja að þjónusta á flugvöllum og í flugleiðsögu sé í samræmi við viðurkenndar öryggiskröfur og aðferðir. Félagið tekur ákvarðanir er varða fjárfestingar og rekstur á grundvelli hagkvæmnis- og rekstrarsjónarmiða. Í því sambandi má nefna að fjárveitingar til verkefna félagsins hafa dregist verulega saman síðustu ár eins og reyndar á við um ýmsa aðra starfsemi.

Eins og kunnugt er af fréttum er Mýflug búið að leigja, eins og ég sagði áðan, sams konar vél sem staðsett er á Akureyri þannig að við metum það svo, a.m.k. að sinni, að það sé sama þörf fyrir viðhald vegna þeirrar vélar vegna sjúkraflugsins þannig að áhrifin ættu að vera óveruleg. Ég vil þó segja af þessu tilefni að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum samt alltaf að gæta að því þegar við erum að tala um störfin að eitt starf skiptir máli, tvö störf skipta máli, ég get alveg deilt því með hv. þingmanni, en þegar farið var í að kanna hvernig þessu væri háttað er það mat sem mér var tjáð að þetta eigi að hafa óveruleg áhrif.