144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli.

521. mál
[17:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Á deiliskipulagi fyrir Akureyrarflugvöll er gert ráð fyrir nýju flughlaði norðan við núverandi flugstöð. Samhliða umhverfismati fyrir lengingu flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli var samþykkt umhverfismat fyrir flughlaðið en ekki hefur orðið af byggingu þess eins og við þekkjum. Til stækkunar flughlaðsins þarf um 200.000 rúmmetra af efni og er kostnaðurinn við byggingu þess áætlaður alls um 800 millj. kr. Um einhvern aukinn rekstrarkostnað verður að ræða af flughlaðinu og beinar tekjur af því verða óverulegar.

Helstu rök fyrir byggingu flughlaðsins er að núverandi flughlað er of nærri flugbrautinni. Allar stærri flugvélar skaga upp úr svokölluðum hindrunarflötum í skipulagsreglum flugvallarins. Jafnframt er takmarkað byggingarsvæði fyrir stærri flugskýli við núverandi flughlað og því gert ráð fyrir lóðum fyrir slíkar byggingar við fyrirhugað flughlað.

Vegna þess, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi hér, að við gerð Vaðlaheiðarganga fellur til mikið af heppilegu efni úr göngunum, sem koma þarf fyrir, gerðu Isavia og Vaðlaheiðargöng áætlun árið 2013 um kostnað við að taka við efninu á svæði nýja flughlaðsins og var hún um 250 millj. kr.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 3. umr. fyrir árið 2015 kemur eftirfarandi fram:

„Lagt er til að við 6. gr. bætist heimild til handa fjármála- og efnahagsráðherra til að ganga til samninga við Vaðlaheiðargöng hf. um flutning á rúmlega 200 þúsund rúmmetrum af efni úr Vaðlaheiðargöngum á væntanlegt flughlaðssvæði við Akureyrarflugvöll.“

Í nefndarálitinu segir síðar að 50 millj. kr. hafi verið veittar til þess að hefja vinnu við verkefnið.

Ég ítreka þessa 6. gr. heimild handa fjármálaráðuneytinu til að ganga til samninga.

Hugsanleg leið til að koma verkefninu áfram er að Vaðlaheiðargöng sjái um fjármögnun þess um ótiltekinn tíma þar til það verður að fullu fjármagnað úr ríkissjóði. Með bréfi, dagsettu 21. nóvember 2013, buðust Vaðlaheiðargöng til að lána fyrir verkefninu um ótiltekinn tíma.

Tillaga meiri hluta fjárlaganefndar var samþykkt, eins og við þekkjum. Nú er í innanríkisráðuneytinu unnið að gerð þjónustusamnings við Isavia þar sem fram kemur ráðstöfun fjármuna til viðhalds flugvalla. Því er ekki lokið en miðað er við að samningurinn verði í samræmi við ofangreint og að þessum tilteknu 50 milljónum, eins og Alþingi vildi, skuli verða varið í undirbúning framkvæmda við nýtt flughlað á Akureyri.

Um frekari fjárveitingar að þessu sinni er ekki að ræða, en þetta er upphafið skulum við segja.

Ég vil taka fram út af þessu að fjárveitingar til flugvalla innan lands hafa undanfarin ár verið skornar niður af árlegum fjárveitingum um vel á annan milljarð kr. sem hefur komið verulega niður á viðhaldi kerfisins. Það er komin uppsöfnuð viðhaldsþörf sem verður að ráðast í svo að ekki þurfi hreinlega að loka flugvöllum.

Í 2. umr. frumvarps til fjárlaga var ákveðið að verja 500 millj. kr. til brýnna viðhaldsverkefna á flugvöllum. Það er mjög mikilvægt, eins og ég segi, það eru mjög brýn verkefni þarna. Við þurfum svolítið að forgangsraða í því efni, hvert þeir peningar eigi að fara.

Ég vil nefna hér sérstaklega rafkerfi og ljósabúnað, bæði á Húsavík og Vopnafirði, sem er orðið mjög knýjandi að farið verði í. Á þessa forgangsröðun erum við að líta í ráðuneytinu. Eins er um að ræða framkvæmdir fyrir vestan, á Þingeyrarflugvelli og víðar, þar er orðið ljóst að með þessa fjármuni getum við alls ekki staðið við allt það sem við þyrftum að gera á þessu ári. Það er alveg ljóst.

Við verðum að forgangsraða. En ég held að varðandi þetta tiltekna verkefni sé ekki hægt að segja meira á þessu stigi en að það eru komnir einhverjir peningar, en það er alveg vitað að við þurfum miklu meiri peninga til að ljúka því.

Eins og ég gat um hér í upphafi þá er samþykkt umhverfismat fyrirliggjandi. Það er einnig tilbúið framkvæmdaleyfi hjá Akureyrarbæ svo að hægt sé að ráðast í framkvæmdina. Svo eru þessir fjármunir til reiðu til að byrja málið, en það er augljóst að til að fara í þetta verk þarf töluvert mikið átak.